Kiljan sprækur og orkumikill

14.05.2010
Kiljan frá Steinnesi og Þorvaldur Árni Þovaldsson eru komnir með aðgöngumiða á Landsmót eftir glæsilega frammistöðu á héraðssýningunni í Víðidal. Mynd: hestafrettir.is
Kiljan frá Steinnesi hlaut háar einkunnir á héraðssýningunni í Víðidal, hækkaði í yfirlitinu og er kominn með aðgöngumiða inn á Landsmót með aðaleinkunnina 8,71. Kiljan virðist hafa náð fyrri styrk eftir hóstapestina svonefndu og segir Þorvaldur Árni Þorvaldsson, þjálfari hans, að hesturinn sé hress, sprækur og orkumikill. Nánast öll hrossin eru komin í þjálfun á ný eftir pestina á hestabúinu Hvoli í Ölfusi þar sem Þorvaldur Árni er yfirþjálfari og tamingamaður. Kiljan frá Steinnesi hlaut háar einkunnir á héraðssýningunni í Víðidal, hækkaði í yfirlitinu og er kominn með aðgöngumiða inn á Landsmót með aðaleinkunnina 8,71. Kiljan virðist hafa náð fyrri styrk eftir hóstapestina svonefndu og segir Þorvaldur Árni Þorvaldsson, þjálfari hans, að hesturinn sé hress, sprækur og orkumikill. Nánast öll hrossin eru komin í þjálfun á ný eftir pestina á hestabúinu Hvoli í Ölfusi þar sem Þorvaldur Árni er yfirþjálfari og tamingamaður. „Hóstapestin stakk sér niður hér á Hvoli snemma í apríl. Hestarnir fengu þessi einkenni sem flestir hestamenn eru farnir að þekkja, hósta og nefrennsli. Nokkrir hestar fengu að auki hita og virðast þeir vera aðeins lengur að ná sér. Veikindaferli Kiljans var ekki langt og þetta gekk fljótt yfir hjá honum. Hann fékk frí í rúma viku eftir að hann varð einkennalaus, þjálfunin fór mjög rólega af stað og síðan hægt stígandi. Kiljan er bara í fantaformi núna,“ segir Þorvaldur Árni.

Tæplega 40 hross eru á húsi á Hvoli og slapp ekkert hrossanna við pestina. „Veikindin lögðust misjafnlega á þau og hestarnir hafa að sama skapi verið mislengi að ná sér. Þetta hefur verið um tveggja til fjögurra vikna ferli, auk pásunnar sem þau hafa öll fengið. Þjálfun er smám saman að komast á fullan skrið hér á Hvoli og byrjað er að hreyfa nánast öll hross.“

Á Hvoli er stefnt með talsverðan fjölda hrossa á Landsmót, en spurningamerkin eru þó enn mörg. „Það verður bara að koma í ljós hvað verður tilbúið í slaginn hér hjá okkur. Við erum nær eingöngu með ung tryppi, sem stefnt er með í dóm, og lítið af eldri hrossum. Mörg þessara hrossa eru ósýnd. Það sem þó liggur fyrir er að Losti frá Strandarhjáleigu er kandídat í töltið á Landsmótinu og gæðingshryssunni Golu frá Prestbakka verður stillt upp í B-flokki, ef allt gengur eftir. Í B-flokkinn er líka stefnt með Hrym frá Hofi, en ég er rétt að byrja að setjast á bak honum eftir veikindafríið,“ segir Þorvaldur Árni að lokum og kveður, enda nóg að gera á stóru búi.

Frétt tekin af www.landsmot.is