Knapi ársins er Árni Björn Pálsson

11.11.2022

Viðurkenningar fyrir knapa ársins og keppnishestabú ársins 2022 voru veittar í Fáksheimilinu í dag. 

Árni Björn Pálsson er knapi ársins 2022. 

Árangur Árna Björns á árinu 2022 var ótrúlegur, en hann hefur á árinu verið í fremstu röð í öllum greinum hestaíþróttanna. Hæst ber að nefna einstakan árangur á Landsmóti hestamanna 2022 þar sem han sigraði í Töltkeppni Landsmótsins í fjórða sinn á ferlinum, nú á Ljúf frá Torfunesi og í B-flokki gæðinga á Ljósvaka frá Valstrýtu ásamt því að vera í fremstu röð í sýningum kynbótahrossa á mótinu. Árni Björn varð þar að auki Íslandsmeistari í Tölti T1 á Ljúf frá Torfunesi, er efstur á stöðulista ársins í fimmgangi með Kötlu frá Hemlu og bar sigur úr býtum í Meistaradeildinni 2022.

Árni Björn Pálsson er einstakur afreksknapi,  sönn fyrirmynd fyrir elju sína, metnað og fagmennsku í hvívetna og hlýtur hann því nafnbótina Knapi ársins 2022. 

Íþróttaknapi ársins 2022 er Árni Björn Pálsson

Árni Björn vann stóra sigra á árinu í tölti T1 á Ljúf frá Torfunesi og er efstur á stöðulista ársins í Tölti eftir sigra á Íslandsmóti og Landsmóti. Hann sigraði Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum og er einnig efstur á stöðulista ársins í fimmgangi. 

Árni er með frábæran heildarárangur í íþróttakeppni á árinu 2022 og hlýtur nafnbótina Íþróttaknapi ársins.

Skeiðknapi ársins 2022 er Konráð Valur Sveinsson

Konráð Valur náði eins og svo oft áður frábærum árangri í skeiði á árinu sem er að líða. Konráð og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu hafa verið því sem næst ósigrandi í 250 m skeiði og 100m skeiði um árabil og virðast þeir félagar enn vera á uppleið. Hann náði einnig góðum árangri með Tangó frá Litla-Garði  og er eftir árið efstur á stöðulistum ársins í 250 m skeiði og 100 m skeiði og annar í 150 m skeiði. 

Konráð Valur átti frábært ár í skeiðkappreiðum ársins og hlýtur nafnbótina skeiðknapi ársins 2022.

Gæðingaknapi ársins 2022 er Sigurður Sigurðarson

Sigurður Sigurðarson hefur um árabil átt gríðalega góðu gengi að fagna í gæðingakeppni með fjölda hrossa. Hann sigraði A-flokkinn á Landsmóti eftir að hafa farið sannkallaða Krísuvíkurleið upp úr B-úrslitum og alla leið til sigurs ásamt því að sýna fjölda hrossa í gæðingakeppnum á árinu sem er að líða. 

Sigurður Sigurðarson hlýtur nafnbótina Gæðingaknapi ársins 2022.

Efnilegasti knapi ársins 2022 er Benedikt Ólafsson

Benedikt náði á árinu frábærum árangri í mörgum greinum hestaíþróttanna. Hann sigraði B-flokk ungmenna á Landsmótinu í sumar á Biskup frá Ólafshaga, varð Íslandsmeistari í gæðingaskeiði á Leiru-Björk frá Naustum III og sigraði slaktaumatölt T2 ungmenna á Reykjavíkurmeistaramóti á Bikar frá Ólafshaga  ásamt 2. Sæti í Tölti T1 á Íslandsmótinu. 

Benedikt Ólafsson hlýtur nafnbótina Efnilegasti knapi ársins 2022

Keppnishestabú ársins 2022 er Gangmyllan, Ketilsstaðir/Syðri-Gegnishólar

Hross frá Gangmyllunni hafa á árinu litað mótahald í Íslandshestaheiminum með glæsibrag. Í hópi hrossa sem hafa keppt frá búinu eru landsmeistarar í Sviss og Þýskalandi, úrslitahesta á Landsmóti í mismunandi greinum, og hestar í verðlaunasætum á fjölda móta um allann heim.

Gangmylllan, Ketilsstaðir/Syðri-Gegnishólar rækta afburðagóð keppnishross sem ná árangri í keppni á öllum sviðum og hlýtur nafnbótina Keppnishestabú ársins 2022.