Kófsveittar á Kvennakvöldi!

02.12.2013
Það var sannkölluð hátíðarstemning þegar Kvennakvöld Líflands var haldið á fimmtudagskvöldið var í verslun fyrirtækisins að Lynghálsi í Reykjavík. Lífland er einn stærsti samstarfsaðili LH og því skunduðu starfsmenn sambandsins og Landsmóts af stað til að kynna LM 2014 á Hellu næsta sumar, og bjóða einstök kjör á vikupassa inná mótið.

Það var sannkölluð hátíðarstemning þegar Kvennakvöld Líflands var haldið á fimmtudagskvöldið var í verslun fyrirtækisins að Lynghálsi í Reykjavík. Lífland er einn stærsti samstarfsaðili LH og því skunduðu starfsmenn sambandsins og Landsmóts af stað til að kynna LM 2014 á Hellu næsta sumar, og bjóða einstök kjör á vikupassa inná mótið. Konurnar tóku okkar fólki vel og voru hæstánægðar með kjörin enda bauðst þeim miðinn á 10.000 kr í stað 12.000 kr sem nú er verðið í forsölunni til áramóta á www.landsmot.is. Ríflega 30 miðar seldust og að auki DVD diskar, húfur og buff merkt LM.

Jólaandinn sveif því yfir vötnum í verslun Líflands og ýmislegt sem gladdi augað og eyrað. Nadia Banine var veislustjóri og kynnti til sögunnar Guðmar Þór Pétursson tamningamann og þjálfara sem hélt flott erindi um konuhestinn og draumahestinn. Bryndís Ásmundsdóttir söng- og leikkona fór með gamanmál og söng lög eftir Janis Joplin og Tínu Turner og gerði það listavel. Hennar ektamaður Fjölnir Þorgeirsson kom, sá og sigraði er hann tók þátt í tískusýningu á nýju vetrarlínu Mountain Horse en hann kvaddi sviðið með því að fara í splitt! Það kom engum á óvart enda Fjölnir uppátækjasamur með eindæmum. Jón Jónsson söngvari og fótboltamaður kom sveittur (næstum því) af fótboltaæfingu og tók nokkur vel valin lög úr eigin smiðju við góðar undirtektir viðstaddra. Ekki má gleyma heiðursg(h)estinum, gæðingnum Andra frá Vatnsleysu. Hann kom líka í sparigallanum og bræddi hjörtu, enda mikill sjarmör.

Lífland bauð upp á léttar veitingar sem runnu ljúft niður og kvöldið tókst afar vel að mati gesta, sem margir hverjir höfðu dottið í lukkupottinn og unnið í happdrætti kvöldsins.

Yfir og út.