Kosning um reiðkennara ársins 2021

07.12.2021

Menntanefnd LH auglýsir netkosningu á reiðkennara ársins 2021. 

Kosningu lýkur á miðnætti mánudaginn 13. desember. Það nafn sem verður fyrir valinu verður síðan sent í kosningu á vefsíðu FEIF (FEIF trainer of the year) þann 10.-17. janúar 2022. þar sem kosið verður um 1 reiðkennara frá hverju FEIF landi. Sigurvegari í FEIF kosningunni verður síðan tilkynntur 4.-5. febrúar 2022. 

Sigurvegari íslensku kosningarinnar verður tilkynntur 17. desember 2021. 

Tilnefndir eru: 

Sara Arnbro - Sara Arnbro rekur reiðskólann í Ysta Gerði í Eyjafjarðarsveit. Hún rekur reiðskóla fyrir börn á aldrinum 5-16 ára allt árið um kring og var með yfir 150 skráningar í reiðskólanum 2021. Í reiðskólanum eru einnig börn með ADHD, einhverfu og kvíða og hafa þessi námskeið verið mikilvægur þáttur í vellíðan barnanna á Covid tímum. 

Hinrik Þór Sigurðsson - Hinrik hefur lagt mikla áherslu á gott aðgengi hins almenna hestamanns að fræðslu og kennslu, og hefur á árinu skrifað yfir 20 pistla á Eiðfaxa með fræðslu um reiðmennsku og hugarþjálfun fyrir hestamenn. Síðastliðin 6 ár hefur Hinrik verið umsjónarmaður Reiðmannsins hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hinrik Þór hefur einnig verið brautryðjandi í starfi yfirþjálfara hjá Hestamannafélaginu Sörla. 

Sigurður Heiðar Birgisson - Sigurður hefur kennt við Háskólann á Hólum frá því haustið 2018. Hann hefur starfað við skólann í fullu starfi og hefur séð um kennslu í frumtamningum á 2. ári ásamt grunnþjálfun og komið inn í kennslu í ýmsum öðrum áföngum við skólann síðustu ár. Nemendur láta afar vel að honum og þykir hann mikill fyrirmyndarkennari. 

Ýttu hér til að kjósa.