Kvennatöltið endurvakið

08.02.2013
Frá Kvennatölti 2008.
Hið eina sanna Kvennatölt verður endurvakið í ár og í þetta skiptið fer mótið fram í reiðhöllinni í Víðidal laugardaginn 13. apríl nk.

Hið eina sanna Kvennatölt verður endurvakið í ár og í þetta skiptið fer mótið fram í reiðhöllinni í Víðidal laugardaginn 13. apríl nk.

Boðið verður upp á fjóra keppnisflokka að venju: Byrjendaflokk, minna keppnisvanar, meira keppnisvanar og opinn flokk. Mótið er opið öllum konum 18 ára og eldri (ungmennaflokkur og fullorðinsflokkur).
Kvennatöltið hefur notið mikilla vinsælda og verið eitt stærsta opna töltmót landsins og í ár stefna skipuleggjendur að því að halda stærsta og veglegasta kvennatöltsmót sögunnar. Fyrsta mótið var haldið árið 2001 í reiðhöll Gusts og þar fór mótið fram í tíu ár, en féll svo niður í fyrra vegna flutninga félagsins á nýtt svæði.
Stofnaður hefur verið viðburður á Facebook undir nafninu KVENNATÖLTIÐ og eru konur hvattar til að skrá sig þar inn til að fylgjast með fréttum af mótinu, auk þess sem sendar verða út frekar netfréttir þegar nær dregur móti og skráning hefst.

Hestakonur eru jafnframt hvattar til að taka daginn frá og stefna að þátttöku í skemmtilegu móti þar sem gleðin ræður ríkjum!

 

Mynd: Frá Kvennatölti 2008.