KVENNATÖLTIÐ haldið í Víðidal 13. apríl

02.04.2013
Hið eina sanna KVENNATÖLT fer fram í reiðhöllinni í Víðidal laugardaginn 13. apríl nk. Mótið er opið töltmót fyrir konur, 18 ára og eldri, og boðið er upp á keppni í fjórum styrkleikaflokkum þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Hið eina sanna KVENNATÖLT fer fram í reiðhöllinni í Víðidal laugardaginn 13. apríl nk. Mótið er opið töltmót fyrir konur, 18 ára og eldri, og boðið er upp á keppni í fjórum styrkleikaflokkum þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Flokkarnir eru:

1. Opinn flokkur

- opinn öllum sem vilja. Gert er ráð fyrir að reynslumiklir knapar skrái sig í þennan flokk.

2. Meira vanar

- ætlaður konum sem eru töluvert vanar í keppni.

3. Minna vanar

- ætlaður konum sem hafa litla reynslu í keppni, en þó einhverja.

4. Byrjendaflokkur

- ætlaður konum sem eru að stíga sín fyrstu skref á keppnisvellinum eða hafa mjög litla reynslu.

 

ATH!

- Hafi keppandi sigrað í einhverjum styrkleikaflokki kvennatöltsins áður skal viðkomandi færast upp um flokk.

- Hafi keppandi komist þrisvar eða oftar í A-úrslit í einhverjum styrkleikaflokki kvennatöltsins áður skal viðkomandi færast upp um flokk.

Keppendur eru hvattir til að sýna metnað við val á keppnisflokki!

Í byrjendaflokki eru þrír keppendur saman í holli, sýnt er hægt tölt og tölt á frjálsri ferð, ekkert snúið við. Í öllum öðrum flokkum eru tveir keppendur saman í holli, sýnt hægt tölt, snúið við, tölt með hraðabreytingum og svo greitt tölt. A og B úrslit í öllum flokkum.

Skráning mun fara fram dagana 6. – 9. apríl nk. í gegnum vefsíðuna sportfengur.com, nánar kynnt þegar nær dregur.

Áhersla er lögð á jákvæða og uppbyggilega stemmingu, þulur stýrir keppninni og þarna er kjörið tækifæri fyrir konur til að koma saman, taka fyrstu skrefin á keppnisvellinum eða keppa við jafningja sína á skemmtilegu móti. Verðlaun eru hin veglegustu og t.d. verður glæsilegasta parið í hverjum flokki verðlaunað, sem og tíu efstu keppendur í hverjum flokki.

Aðalstyrktaraðilar mótsins eru MUSTAD og TOP REITER en allur ágóði af mótinu mun renna til góðgerðarmála. Undirbúningsnefndin vonast til að sem flestar konur taki daginn frá og mæti til leiks þann 13. apríl!