Kvistur og Kompás mæta - Arion kemur með alsystrum sínum

05.04.2012
Mynd: Kvistur frá Skagaströnd á LM 2008. Ljósm.: HGG
Miðar á Stóðhestaveisluna í Ölfushöllinni á laugardaginn rjúka út í forsölu og mikil stemming er að myndast um sýninguna. Ungfolasýning Hrossaræktarsamtaka Suðurlands hefst með sköpulagsmati kl. 13 og svo verða folarnir sýndir kl. 15:30. Miðar á Stóðhestaveisluna í Ölfushöllinni á laugardaginn rjúka út í forsölu og mikil stemming er að myndast um sýninguna. Ungfolasýning Hrossaræktarsamtaka Suðurlands hefst með sköpulagsmati kl. 13 og svo verða folarnir sýndir kl. 15:30.
 
Margir stórættaðir folar eru skráðir til leiks og án efa gott tækifæri þarna fyrir hrossaræktendur til að skyggnast aðeins inn í framtíðina.

Um kvöldið mæta svo eldri stjörnur, þar á meðal Arion frá Eystra-Fróðholti sem kemur með alsystrum sínum þeim Spá frá Eystra-Fróðholti og Glímu frá Bakkakoti. Frá Eystra-Fróðholti er líka gæðingurinn Snævar-Þór sem vakti mikla lukku fyrir norðan sl. helgi og hann kemur fram á veislunni enda í góðum gír og þeir Geisli Orrason frá Svanavatni og Máttur Keilisson frá Leirubakka láta líka sjá sig.

Stálasynirnir Bláskjár frá Kjarri, Stæll frá Neðra-Seli og Þeyr frá Holtsmúla munu svífa um salinn og afkomendur heiðurshestsins Þorra frá Þúfu verða með, þeir Muggur frá Hárlaugsstöðum, Eldfari frá Stóru-Ásgeirsá og Þröstur frá Hvammi. Síðast en ekki síst ber svo að nefna stólpahestinn Kvist frá Skagaströnd sem ekki hefur komið fram frá því hann sló í gegn á LM 2008 og verður spennandi að berja hann augum sem og bróður hans Kompás sem einnig mætir til veislunnar.

Eins og áður segir er forsala í fullum gangi og verður hægt að nálgast miða hjá N1 á Ártúnshöfða, í Hveragerði, á Selfossi og á Hvolsvelli fram að hádegi á laugardag og þar er opið á föstudaginn langa, en einnig eru miðar í Líflandi, Ástund, Hestum og mönnum og Baldvini og Þorvaldi.  Miðaverð er kr. 3.000 í forsölu, kr. 3.500 við innganginn, stóðhestabókin fylgir með. Frítt er inn á ungfolasýningu HS.
Kynning á þeim hestum sem koma fram heldur áfram á morgun - fylgist með á fréttamiðlum hestamanna!