Kynbótahross frá LM 2004 komin á WorldFeng

21.04.2020

Hestamannafélögin Adam, Freyfaxi og Neisti voru að bætast í hóp þeirra félaga sem hafa keypt aðgang fyrir sína félagsmenn að myndböndum frá landsmótum á WorldFeng. Er þitt félag komið með aðgang?

Fyrir eru með aðgang Borgfirðingur, Skagfirðingur, Máni, Sóti, Léttir, Brimfaxi, Glaður, Grani, Sindri, Sörli, Sleipnir, Trausti, Kópur, Dreyri, Geysir og Snæfellingur ásamt FHB og sérsamböndum um íslenska hestinn í Svíþjóð, Noregi og Belgíu.

Hestamannafélögum býðst að kaupa aðgang að myndböndunum fyrir sína félagsmenn fyrir 350 kr. á ári fyrir hvern félagsmann 18-69 ára, en almennur aðgangur kostar annars 4.990 á ári fyrir hvern notanda

Nýjasta efnið sem komið er inn á WorldFeng eru kynbótahross frá LM 2004 en nýlega komu inn kynbótahross frá LM 2002 og stóðhestar frá LM 2000 ásamt stóðhestum, úrslitum í gæðingakeppninni og skeiði frá LM 2011.  En myndefni frá Landsmótunum 2006-2008 kemur svo jafn óðum inn í kjölfarið.

Mikil söguleg verðmæti liggja í myndböndum frá landsmótum liðinna ára, þarna er skrásett saga landsmóta og kynbótasaga íslenska hestsins. Landsmót 1954-1986 eru í nokkrum stuttum þáttum. Landsmótin 2012, 2014, 2016 og 2018 eru klippt og tengd við hvern hest.

Þau félög sem hafa áhuga á að kaupa aðgang að myndefninu fyrir sína félagsmenn geta haft samband við skrifstofu LH á netfangið hjorny@lhhestar.is