Kynnið ykkur Kortasjá LH!

16.07.2018

Samgöngunefnd LH vinnur að skráningu reiðleiða í kortasjá, skráningin er unnin í samstarfi við Loftmyndir ehf. Einungis þær reiðleiðir sem eru á staðfestu aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélags eru settar í kortasjána. Reiðleiðirnar skiptast í þrjá flokka, þéttbýlis-, stofn- og héraðsleiðir. Allar reiðleiðir í kortasjánni fá ákveðin númer og kaflanúmer, númerakerfið er unnið í samstarfi við Vegagerðina.

Búið er að skrá 12437 km. af reiðleiðum í kortasjána á svæðinu frá Lómagnúpi í austri, um Suðurland, Vesturland og Norðurland að Jökulsá á Fjöllum. Kortasjáin er til mikilla hagsbóta og öryggis fyrir skipulag hestaferða, hægt er að hlaða niður GPS ferlum af hverri reiðleið fyrir sig. Einnig kemur fram heiti hverrar reiðleiðar og lengd í km. Það að geta hlaðið niður ferlum af reiðleiðinni stuðlar að miklu öryggi hestaferðamanna sem og gangandi manna sem einnig geta nýtt sér reiðleiðirnar. Skráning og kortlagning reiðleiða og gott aðgengi að þeim upplýsingum stuðlar að því að beina umferð hestamanna inn á samþykktar reiðleiðir og vernda þar með viðkvæm svæði á landinu.

Markmið með kortasjánni er að safna öllum reiðleiðum á landinu í einn kortagrunn sem er öllum aðgengilegur.

Hægt er að teikna inn reiðleiðir og senda þær til umsjónarmanns skráningar reiðleiða, en ath. þarf að reiðleiðin skal vera á samþykktu skipulagi viðkomandi sveitarfélags.

Sérstök tákn eru nú til staðar í kortasjánni fyrir vegvísa.

Hægt er að leita í kortasjánni að vegvísum, áningum og skálum, (sem stendur eru einungis vegvísar komnir upp á félagssvæðum hestamannafélaganna Spretts og Harðar, en til stendur að LH í samvinnu við Bláskógabyggð setji upp 15 stk. vegpresta með 42 stk. vegvísa við reiðleiðir um Kjöl. Vonast er til að unnt verði að hefjast handa við uppsetningu þeirra um eða upp úr nk. mánaðamótum, einnig 4 stk. fræðslu- og upplýsingaskilit sem verða staðsett við Fremstaver, Árbúðir, Gíslaskála og í Sóleyjardal. Allir vegvísar verða númeraðir og hnitsettir í kortasjánni sem mun auka á öryggi vegfarenda. Allir reiðleiðaferlar í kortasjánni hafa verið afhentir Neyðarlínunni ( 112 ) til afnota ef vá ber að.

Farið í leitarglugga og skrifið í reitinn t.d. „vegvísir“ og ýtið á vegvísir 5 í vallista undir glugga. Þá fer kortasjáin á þann stað og píla sem merkir staðinn. Með því að fara með örina yfir táknið fyrir vegvísinn, þá opnast gluggi ( eins og fyrir reiðleiðirnar og áningastaðina ). Hér er hægt að sækja GPS staðsetningu fyrir vegvísinn og hlaða niður í tölvu eða í GPS tæki.

Sama á við um Áningastaði, Girðingarhólf, Skála, Ferðaþjónustu, Fjárréttir og Neyðarskýli.

Í glugganum efst til hægri er þessi gluggi þar sem hægt er að haka við það sem hver og einn vill láta birtast á kortasjánni, einnig er hægt að velja um hvort haft sé kort eða loftmynd undir.

Í kortasjánni er hægt að skoða yfirlit reiðvegaframkvæmda áranna 2011–2017 og er til efs að aðrir aðilar hafi eins gagnsæa notkun á almannafé og hestamenn.

Verið er að skoða þessa dagana hvort að í kortasjána verði möguleiki á að bæta lýsingum eða upplifun hestaferðamanna af reiðleiðunum, einnig að bæta við myndgallerýi eða myndbandi af reiðleiðum í kortasjánni.

Bein leið á kortasjána er: http://www.map.is/lh  einnig er hægt að fara á heimasíðu LH http://lhhestar.is  þar er gluggi merktur Kortasjá, einnig eru tengingar frá heimasíðum flestra hestamannafélaga í landinu á kortasjána.

Nýjustu upplýsingar um kortasjána er ávallt að finna í fréttatilkynningum á heimasíðu LH og á Facebook síðu Samgöngunefndar; Kortasjá / Samgöngunefnd LH, í dag erum við með 1260 fylgjendur. 

Kortasjá valmyndKortasjá reiðleið

 

Halldór H Halldórsson

Ferða- og samgöngunefnd LH.