Landsliðið óskar eftir folatollum

16.02.2009
Fjáröflunarnefnd íslenska landsliðsins í hestaíþróttum rær nú lífróður við að fjármagna för liðsins til Sviss í sumar. Í fjárhagsáætlun LH er gert ráð fyrir 18 milljónum í kostnað við HM2009. Landsliðið biðlar til stóðhestseigenda um folatolla. Fjáröflunarnefnd íslenska landsliðsins í hestaíþróttum rær nú lífróður við að fjármagna för liðsins til Sviss í sumar. Í fjárhagsáætlun LH er gert ráð fyrir 18 milljónum í kostnað við HM2009. Landsliðið biðlar til stóðhestseigenda um folatolla. „Heimsmeistaramótin eru mikilvægasti markaðsgluggi okkar og sameiginlegt hagsmunamál allra hestamanna. Það hefur sýnt sig að góður árangur á HM hefur ævinlega verið sprauta fyrir hestamennskuna hér heima, bæði fyrir atvinnu- og áhugafólk. Þetta er okkar sameiginlegi snertiflötur,“ segir Jón Albert Sigurbjörnsson, sem sæti á í fjáröflunarnefndinni.

„Það er deginum ljósara að það verður mjög erfitt að ná í peninga eftir þetta fall. Fyrirtækin er flest hver ekki aflögufær. En sem betur fer eru þó undantekningar á því. Ein leiðin, sem við höfum reyndar farið áður, er að biðla til stóðhestseigenda um folatolla, sem við seljum síðan með einum eða öðrum hætti.“

„Þetta fer vel af stað, en okkur vantar fleiri eftirsóknarverða tolla. Gunnar Arnarson, ræktunarmaður ársins 2008, er að aðstoða okkur við utanumhald á þessu. Auðsholtshjáleigubúið hefur þegar gefið nokkra tolla og ástæða til að þakka þeim fyrir stuðninginn. Ég vil hvetja alla sem greiða vilja veg landsliðsins á HM2009 til að leggja okkur lið í baráttunni,“ segir Jón Albert.

Þeir sem vilja gefa liðinu folatoll, og þeir sem vilja kaupa tolla af landsliðinu, geta haft samband við Jón Albert í síma 860-1734, eða Bjarnleif í síma 893-4683.