Landsliðið tekur þátt í rannsókn

14.06.2018
Viðar Ingólfsson og Kjarkur frá Skriðu á HM2017

Stjórn LH og Háskólinn í Reykjavik (HR) gerðu samstarfssamning síðastliðið haust. Þar veitir LH meistarnema við HR námsstyrk til tveggja ára. Nemandinn gerir yfirgripsmikla rannsókn er tengist mælingum á líkamlegri getu, hreyfifærni og sálfræðilegum þáttum landsliðs HM2017 og afrekshóps LH. Rannsóknin verður hluti af meistararitgerð til MSc gráðu í íþróttavísindum og þjálfun. 

Landsliðið sem fór á HM 2017 tók sálræna hlutann rétt fyrir HM en nú er komið að líkamlegum mælingum. Líkamlegt og andlegt form knapa hefur lítið verið skoðað bæði hérlendis og erlendis og geta niðurstöðurnar því verið mjög áhugaverðar til að átta okkur á hversu mikilvægt er fyrir knapa að vera í góðu formi og einnig hvort knapar skera sig á einhvern hátt frá öðrum íþróttamönnum í ákveðnum æfingum.

Önnur sérsambönd á borð við KSÍ, HSÍ, GSÍ og KKÍ eru með samskonar samning við HR. Það verður þvi áhugavert að sjá niðurstöður þessarar rannsóknar.