Landsliðsdagur U21 og hæfileikamótunar

30.04.2024

Á laugardaginn fór fram virkilega spennandi og skemmtilegur dagur hjá U21-landsliðshópi og Hæfileikamótun LH. Veg og vanda að skipulagningu dagsins áttu landsliðsnefnd auk Sigvalda Lárusar Guðmundssonar yfirþjálfara hæfileikamótunar og Heklu Katharínu Kristinsdóttur landsliðsþjálfara U21. Þátttakendur hittust í Hestamiðstöðinni Dal þar sem vel var tekið á móti þeim. Segja má að dagurinn hafi verið lokapunkturinn í starfi vetrarins og mikilvægt innlegg fyrir komandi keppnistímabil. Þarna voru saman komnir um 50 afreksknapar framtíðarinnar og það er ljóst að með þessum glæsilega hópi er framtíðin björt í hestaíþróttum.

Dagurinn byrjaði á frábærum fyrirlestri Margrétar Láru Viðarsdóttur sálfræðingi og fyrrum landsliðskonu í knattspyrnu. Hún fjallaði um andlegan styrk, sjálfstraust og hugrekki og leiðir til að takast á við frammistöðukvíða og óttann við að mistakast. Einnig talaði hún um umtal og öfund sem oft fylgir velgengni. Á eftir henni kom Anna Steinsen frá Kvan og stýrði hún léttu hópefli í reiðhöllinni sem hristi hópinn saman. Þar naut hópurinn sín í allskyns leikjum og verkefnum.

Kiddi Skúla, formaður landsliðsnefndar var svo búinn að leggja drög að góðum hádegismat og Jonni kokkur grillaði fyrir hópinn, færum við þeim bestu þakkir fyrir. Á meðan þau nutu matarins fór fram spennandi spurningakeppni um ýmislegt hestatengt.

Eftir hádegi tók Glódís Rún Sigurðardóttir, heimsmeistari í fimmgangi ungmenna við, en hún fór yfir þjálfunarferli vetrarins á hinum sigursæla Breka frá Austurási. Þau Breki tóku þátt í fjölmörgum greinum í meistaradeildinni í vetur og stóðu ofarlega í þeim öllum. Auk þess sem Glódís Rún Sigurðardóttir fjallaði um leið sína á HM, þær áskoranir sem hafa orðið á veginum og hvernig hún stóð uppi sem heimsmeistari í fimmgangi ungmenna.

Sara Sigurbjörnsdóttir, ríkjandi heimsmeistari í fimmgangi, hélt sýnikennslu með keppnishesti sínum Vísi frá Tvennu. Hún fór yfir þjálfunarstund með Vísi og fjallaði um reynslu sína af Heimsmeistaramótinu síðastliðið sumar og undirbúning hennar og Flóka frá Oddhóli fyrir stóru stundina í Hollandi. Að lokum hélt Sigurbjörn Bárðarson A-landsliðsþjálfari og sigursælasti knapi Íslandssögunnar sýnikennslu með hesti sínum Nagla frá Flagbjarnarholti. Hann fór um víðan völl í sinni umfjöllun og lagði áherslu á einfaldleikann í þjálfun og mikilvægi þess að það væri skilningur milli knapa og hests. Heilt yfir var þetta virkilega fræðandi og skemmtilegur dagur og mikilvægt innlegg inn í þjálfunina hjá þessum efnilegu knöpum.

Við ræddum við Kristinn Skúlason formann landsliðsnefndar um hæfileikamótunina og afreksstefnu LH: „Hæfileikamótun LH hefur verið starfrækt síðan 2020 og er markmiðið með henni að byggja enn frekar undir árangur í hestaíþróttum og undirbúa efnileg knapa fyrir þjálfun og keppni á hæsta stigi. Nú þegar erum við farinn að sjá árangurinn sem þetta verkefni er að skila.“ segir Kiddi og bættir við „Það var frábært að geta átt svona dag með hópnum og við erum mjög þakklát fyrir þær góðu móttökur sem við fegnum hjá Hestamiðstöðinni Dal, þar var öll aðstaða til fyrirmyndar fyrir kennsludag af þessu tagi. Fyrirlesararnir sem komu voru einnig frábærir og svo er ofboðslega dýrmætt hversu viljugir landsliðsknaparnir okkar eru til að koma og gefa af sér á degi sem þessum. Þeir eru miklar fyrirmyndir og það er frábært að sjá þá leggja sitt af mörkum til að undirbúa næstu kynslóð hugsanlegra landsliðsknapa. Það var einnig mjög gaman sjá Glódís Rún sem er nú á sínu fyrsta ári sem fullorðin koma og miðlað reynslu sinni og þekkingu en hún er ein af þeim sem hafa verið virk í starfi U21.“

 

„Framundan er Norðurlandamót í hestaíþróttum og dagur sem þessi er mikilvægur til að þjappa hópum saman og mynda samfellu í starfinu. Á næsta ári er svo heimsmeistara mót í Sviss og mikilvægt að þau sem setja stefnuna á þessi mót hugi vel að undirbúningi. Með afrekstefnu LH myndast dýrmæt tengsl milli hæfileikamótunar, U21 og A-landsliðsins enda er það ein af forsendum árangurs að þessir þættir vinni vel saman.“