Landsmót 2028 á Rangárbökkum og Landsmót 2030 í Reykjavík

18.12.2023

Á fundi stjórnar LH þann 15. desember sl. var samþykkt, að tillögu stjórnar LM ehf., að Landsmót hestamanna 2028 verði haldið af Rangárbökkum ehf. á Rangárbökkum og Landsmót hestamanna 2030 verði haldið af Hestamannafélaginu Fáki í Víðidal í Reykjavík, með fyrirvara um að samningar milli aðila náist.

Við staðarval skal stjórn LH hafa til hliðsjónar fjárhagslega hagkvæmni svo og yfirsýn á félagslegt réttlæti eins og segir í reglugerð um Landsmót.

Tvær umsóknir bárust um hvort mót. Um Landsmót 2028 sóttu Rangárbakkar ehf. og Hestamannafélagið Fákur og um Landsmót 2030 sóttu Hestamannafélagið Fákur og Hestamannafélagið Skagfirðingur.

Stjórn LM ehf. fundaði með umsækjendum sem allir lögðu mikinn metnað í sínar umsóknir og höfðu til þess fullan stuðning sveitarfélaga sinna. Þessir þrír umsækjendur hafa haldið Landsmót með miklum glæsibrag og öll svæðin bera vel slíkan stórviðburð sem landsmót er.

Með þessari ákvörðun eru vonir bundnar við að fest verði í sessi sú tilhögun að Landsmót verði haldið til skiptis í Reykjavík, á Suðurlandi og á Norðurlandi, á meðan áhugi mótshaldara er fyrir hendi, og verði þannig til þess að þessir þrír mótsstaðir styrki sína aðstöðu til að halda Landsmót, en eins og kunnugt er verður Landsmót 2024 haldið í Reykjavík og Landsmót 2026 haldið á Hólum í Skagafirði.