Landsmót að Hólum í Hjaltadal

03.12.2014
Landssamband hestamannafélaga

Stjórn Landssambands hestamannafélaga samþykkti samhljóða á fundi sínum, sem haldinn var þriðjudaginn 2. desember 2014, að verða við beiðni Gullhyls  um breytt staðarval á Landsmóti hestamanna 2016.  Mótsstaðurinn verður færður frá Vindheimamelum heim að Hólum í Hjaltadal.  Fyrirhugaðir samningar miðast við þá staðsetningu. Samþykktin er með þeim fyrirvara að Gullhylur sendi staðfestingu þess efnis til LH, frá mennta- og menningarmálaráðherra og sveitastjórn Skagafjarðar fyrir 22.desember 2014.     

Eins og kemur fram í beiðni Gullhyls, þá var Landsmót síðast haldið að Hólum 1966 og því viðeigandi að fagna þeim tímamótum að slétt 50 ár séu liðin með því að halda glæsilegt Landsmót á þessum sögufræga stað að nýju. Á Hólum er glæsileg aðstaða fyrir hendi; mikill fjöldi hesthúsplássa, þrjár reiðhallir, mikið gistirými auk þess sem Sögusafn íslenska hestsins er að Hólum. Þar er einnig rekin æðsta menntastofnun íslenska hestsins í heiminum, en hestafræðideild Hólaskóla er opinber miðstöð menntunar og rannsókna á sviði hrossaræktar, tamninga, reiðmennsku og reiðkennslu á Íslandi.

Nánari upplýsingar eða viðtal um ákvörðun stjórnar, hafið samband við Lárus Ástmar Hannesson, formann Landssambands Hestamannafélaga.

Sími: 898 0548

Fh. Stjórnar Landssambands hestamanna

Lárus Ástmar Hannesson