Landsmót dagur tvö

02.07.2024

Dagur tvö á landsmóti hófst með sérstakri forkeppni í unglinga flokk, hæstu einkunn dagsins hlutu þær Ída Mekkín Hlynsdóttir á Marínu frá Lækjarbrekku 2 með 8,79 í einkunn og leiða því inn í milliriðla, en efstu þrjátíu knaparnir komast áfram þangað. Eftir hádegi hófst svo sértök forkeppni í A flokki gæðinga og þrátt fyrir að örlitla vætu var brekkan þéttsetin þegar hver glæsisýningin rak aðra.

Efst eftir forkeppni eru Álfamær frá Prestsbæ með 9,07 í einkunn og Árni Björn Pálsson. Hann var sýndi einnig Seðil frá Árbæ sem endaði þriðji með 8,90 í einkunn. Í öðru sæti einnig með yfir 9 í einkunn voru Leynir frá Garðshorni á Þelamörk og Eyrún Ýr Pálsdóttir.

Deginum lauk svo á forkeppni í fjórgangi þar sem Þorgeir Ólafsson og Auðlind frá Þjórsárbakka leiða með 7,77 í einkunn. Til keppni á A-úrslitum mæta auk þeirra: Gústaf Ásgeir Hinriksson og Assa frá Miðhúsum, Jóhanna Margrét Snorradóttir á Kormáki frá Kvistum, Teitur Árnason og Aron frá Þóreyjargnúp, Mette Mannseth og Hannibal frá Þúfu og Guðmunda Ellen Sigurðardóttir og Flaumur frá Fákshólum.