Landsmót hestamanna í beinni á Netinu

21.06.2011
Innlendir og erlendir áhugamenn um íslenska hestinn og hestaíþróttir geta nú tryggt sér í áskrift aðgang að beinum útsendingum frá Landsmóti hestamanna alla keppnisdaga mótsins. Innlendir og erlendir áhugamenn um íslenska hestinn og hestaíþróttir geta nú tryggt sér í áskrift aðgang að beinum útsendingum frá Landsmóti hestamanna alla keppnisdaga mótsins.

Opnað verður fyrir tengingar að morgni fyrsta keppnisdags þar sem notendur hafa aðgang að beinum útsendingum frá öllum viðburðum dagsins. Mjög auðvelt er að kaupa aðgang að útsendingunum á vefsvæði Landsmótsins http://www.landsmot.is/ og greiða líkt og fyrir miða með greiðslukorti.

Miðasala á Landsmót hestamanna sem fram fer á Vindheimamelum dagana 26. júní til 3. júlí n.k. gengur vel enda áhugi á hestaíþróttum vaxandi, ekki hvað síst meðal erlendra aðdáenda íslenska hestsins en áætlað er að yfir 2000 erlendir gestir sæki mótið í ár. Íslenski hesturinn sem fyrir löngu hefur skipað sér í framvarðasveit þeirra sem bera hróður lands og þjóðar um allan heim hefur mikið aðdráttarafl og er ljóst að þessi nýjung að opna aðgang að beinum útsendingum mun auka áhuga erlendis á hestinum og ferðalögum um stórbrotna náttúru landsins.
Notendur tengjast útsendingum með venjulegri tölvu og hefðbundnum vefvafra og geta þannig notið vandaðrar dagskrárgerðar en í ár er keppnin tekin upp með 7 hágæða myndavélum sem frá mismunandi sjónarhornum gera betur skil því sem fyrir augu ber. Öll myndvinnsla er með besta móti og myndgæði útsendingar um netið mikil. Sérfræðingar frá nokkrum aðilum koma að tæknilegri úrvinnslu.

Auk beinna útsendingar geta áskrifendur skoðað samantekt frá hverjum keppnisdegi sem er gerð aðgengileg seint hvern keppnisdag eða um leið og allri eftirvinnslu er lokið. Mánaðaráskriftin sem kostar 20 evrur eða 3500 krónur veitir aðgang að beinu útsendingunum alla mótsdagana og samantektunum í 3 mánuði frá fyrsta mótsdegi.

Stjórn og starfsfólk Landsmóts hestamanna vill með þessari auknu þjónustu leggja sitt af mörkum til að auka aðgengi þeirra sem ekki eiga heimangengt þetta árið að vandaðri dagskrárgerð þar sem hægt er að fylgjast náið með því sem fram fer og skoða þegar hentar brot af því besta frá hverjum keppnisdegi. Með þessu opnast sá töfraheimur sem Landsmót hestamanna er enda fátt eitt sem jafnast á við glæsta gæðinga, margreynda knapa og fjörugt mannlíf í stórbrotinni íslenskri náttúru.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsvæði Landsmótsins: http://www.landsmot.is/