Landsmót hestamanna í Reykjavík 2016 , hvers vegna ?

19.12.2011
Frá LM 2000 í Reykjavík.
Nokkuð er rætt um Landsmót hestamanna í Reykjavík 2012 um þessar mundir og hefur það mætt andstöðu víða af óskiljanlegum ástæðum.  Bæði ef horft er félagslega og fjárhagslega á málið. Nokkuð er rætt um Landsmót hestamanna í Reykjavík 2012 um þessar mundir og hefur það mætt andstöðu víða af óskiljanlegum ástæðum.  Bæði ef horft er félagslega og fjárhagslega á málið.

Fákur er stærsta hestamannafélagið og stærsti hópurinn sem stundar hestamennsku og býr innan 100 Km frá Reykjavík.  Aðstæður í heild eru afar góðar.  Ljóst er að stjórn Landssambands hestamannafélaga á erfitt verk fyrir höndum að velja mótstaði fyrir Landsmót 2014 og 2016. Hestamannafélagið Fákur hefur sótt um að halda aftur Landsmót 2016 í Reykjavík með stuðningi Reykjavíkurborgar.

Hvers vegna sækir Fákur nú eftir því að halda Landsmót 2016 í Reykjavík ? Mikilvægt er að skoða vel hagsmuni allra hestamanna og láta ekki hreppapólitík ráða för.  Ljóst er að töluverð uppbygging þarf að eiga sér stað á þeim stöðum sem Landsmót er haldið hverju sinni og hefur sú uppbygging átt sér stað í Reykjavík sem undirbúningur fyrir Landsmót 2012.

Gríðarlegur áhugi er fyrir Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín 2013, og verður það væntanlega stærsti hestatengdi atburður hingað til með hátt í 20.000 gesti.  Mikið er búið að auglýsa mótið og er áhugi mikill fyrir því og reikna mótshaldarar með að mótið verði uppselt löngu fyrir tímann. Hagnaður fyrir borgarsamfélagið sem heldur slíkan viðburð er einnig mikill, og er óhætt að reikna með að hér sé um afleidda veltu sem gæti numið allt að einum til einum og hálfum miljarði króna fyrir afleidda þjónustu.

Ef allt fer að óskum, sem ég vona að verði á Landsmóti í Reykjavík 2012 þá má reikna með um 15-18.000 manns komi og heimsæki slíkt mót í Reykjavík. Af þessum fjölda má reikna með að 5-7.000 séu erlendir ferðamenn og komi til þess að kaupa hesta, njóta Landsmóts og hestatengdrar starfssemi um land allt. Samkvæmt könnunum stoppa erlendir ferðamenn er koma í hestatengdar ferðir mun lengur en almennt gerist um þá ferðamenn er hingað sækja.

Fjárhagsleg staða Landssambands hestamannafélaga (LH) er ekki sterk um þessar mundir eftir hestapestina og fámennt Landsmót 2011. Ef vel tekst til í Reykavík 2012 mun fjárhagsstaða Landsmóts styrkjast verulega. Hagnaður varð af mótinu sem haldið var í Reykjavík árið 2000, þveröfugt við það sem margir hafa haldið.  Enginn veit hvenær náttúröflin láta á sér kræla eða ný hestapest  blossar upp. Við skulum vona að afkoman verði góð fyrir LH og það geti í framhaldinu gengt hlutverki sínu og eflt og stutt fjárhagslega við hestamannafélögin og einnig stutt myndarlega við landslið okkar í hestaíþróttum.

Það þarf ekki að fara í grafgötur með, að langbesta aðstaðan á landinu er í Reykjavík til þess að halda Landsmót. Nægir þar að nefna, öflugur stuðningur Reykjavíkurborgar, öflugar samgöngur, margir gistimöguleikar, tjaldstæði, sundlaugar, söfn, veitingastaði og fallegan og skjólgóðan Víðidal í hjarta höfuðborgarinnar er getur tekið vel á móti öllum þeim fjölda sem óskar eftir að sækja Landsmót heim. Við skulum ekki gleyma því líka að við erum í harðri samkeppni við Heimsmeistaramót íslenska hestsins sem er haldið annað hvert ár og verður samanburðurinn erfiður ef við vöndum okkur ekki og hugsum um heildar hagsmuni íslenska hestsins og þeirra er hafa atvinnu og ánægju af honum. Við verðum að líta upp og horfa fram á veginn og líta á þetta í nýju ljósi, það eru breyttir tímar og auknar kröfur um að vel sé að verki staðið.

Ég vil að lokum fyrir hönd Hestamannafélagsins Fáks bjóða alla landsmenn velkomna á Landsmót hestamanna í Reykjavík 2012 sem haldið verður dagana 25. júní – 1. júlí.

Rúnar Sigurðsson
Formaður Hestamannafélagsins Fáks.