Landsmóti 2010 frestað

31.05.2010
Frá fundi hagsmunaaðila ásamt embættismönnum í dag, 31. maí.
Samhljóða ákvörðun var tekin á fundi hagsmunaaðila í hestamennsku og hrossarækt ásamt yfirvöldum dýralæknamála, starfandi dýralæknum, fulltrúum leiðbeiningaþjónustu og fulltrúa sjávar- og landbúnaðarráðuneytisins vegna smitandi hósta sem herjað hefur á hrossastofninn í landinu undanfarið. Samhljóða ákvörðun var tekin á fundi hagsmunaaðila í hestamennsku og hrossarækt ásamt yfirvöldum dýralæknamála, starfandi dýralæknum, fulltrúum leiðbeiningaþjónustu og fulltrúa sjávar- og landbúnaðarráðuneytisins vegna smitandi hósta sem herjað hefur á hrossastofninn í landinu undanfarið.

Í ályktuninni samþykkti fundurinn að fresta Landsmóti 2010 en halda það að ári, á Vindheimamelum í Skagafirði eins og til stóð á þessu ári.  Fundurinn ítrekaði að þessi frestun Landsmóts um ár skyldi unnin í nánu samstarfi við Alþjóðasamtök Íslandshestafélaga (FEIF).

Jafnframt var skorað á Landssamband hestamannafélaga (LH) og Bændasamtök Íslands (BÍ) að sýningar- og keppnishald yrði endurskoðað á næstu mánuðum til að gera eigendum hrossa, sem stefnt var með í dóma, sýningar- eða keppni á árinu, kleift að skrá þau til þátttöku þegar þau eru orðin heilsuhraust. Tryggt verði að sýningar- og keppnishald fari fram með velferð hestsins og heilsu að leiðarljósi.

Fundinn sátu auk helstu hagsmunaaðila í hestamennsku og hrossarækt, fulltrúi sjávar- og landbúnaðarráðuneytis, formenn BÍ og LH, stjórn Landsmóts ehf., formaður Félags hrossabænda og Félags tamningamanna.  Fulltrúar yfirvalda dýrlæknamála sátu jafnframt fundinn ásamt starfandi dýralæknum og fulltrúum leiðbeiningaþjónustu.

Fyrir liggur að tjón greinarinnar vegna sjúkdómsins er nú þegar orðið gífurlegt og hagsmunir miklir.  Er skorað á stjórnvöld að tryggja Matvælastofnun (MAST) og Tilraunastöðinni á Keldum nægjanlegt fjármagnt til að auka rannsóknir og aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir.  Jafnframt verði Landsmótshöldurum tryggð sú fjárhagslega staða að framtíðar mótahaldi sé ekki ógnað.

Aðspurður segir Haraldur Þórarinsson, formaður LH og Landsmóts hestamanna ehf  Landsmót vera stærsta glugga hestamennskunnar í landinu og gífurlega mikilvægt öllum greinum hestamennskunnar þ.m.t.  ferðaþjónustu í landinu.  „Tjónið er alvarlegt og það má líkja þessu við náttúruhamfarir, greinin er lömuð og þetta teygir anga sína um allt samfélagið. Þessi ákvörðun var þó óviðráðanleg enda er velferð hestsins algjörlega í fyrirrúmi.“

Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma segir að ýmislegt varðandi sjúkdóminn og feril hans hafi verið að skýrast á síðustu dögum.  Nauðsynlegt sé þó að fara í frekari rannsóknir á eðli hans og uppruna.  „Þetta er vægur sjúkdómur en einkenni hans vara í nokkrar vikur og það hefur sett undirbúning Landsmóts í uppnám“ segir Sigríður.

Að sögn Jónu Fanneyjar Friðriksdóttur framkvæmdastjóra Landsmóts ehf. munu seldir miðar að sjálfsögðu verða endurgreiddir.  „Ég vil þó biðja fólk um að sýna okkur smá biðlund, en allir sem þess óska fá miðana endurgreidda en einnig er möguleiki á að geyma miðana til ársins 2011.  Reynt verður að fara í samstarf við flugfélög vegna flugfarmiða þeirra sem eru að koma erlendis frá en flestir eiga þó að geta nýtt sér ferða- eða forfallatryggingar.  Við munum á næstunni senda út leiðbeiningar til allra sem keypt hafa miða og kynna fyrirkomulagið“ segir Jóna Fanney.

Ályktun fundarins má sjá með því að smella hér.