Leiðin að gullinu - takk fyrir okkur

12.12.2022

Menntadagur landsliðs Íslands í hestaíþróttum var haldinn í um liðna helgi og var sýningin liður í fjáröflun landsliðs-og afreksnefndar fyrir heimsleika íslenska hestsins sem haldnir verða í Hollandi í ágúst 2023. Allir knapar A-landsliðsins, sem staddir eru á Íslandi, héldu stutta sýnikennslu hver á sínu sérsviði, tveir og tveir saman. Mæting áhorfenda var afar góð enda hestamenn þekktir fyrir að vera fróðleiksfúsir. Sýnikennslurnar voru hver öðrum skemmtilegri og fróðlegri og gátu allir tekið eitthvað með sér heim sem gagnast þeim í daglegri þjálfun, sama hvar knapar eru staddir með sinn hest.

Landsliðs-og afreksnefnd LH þakkar öllum sem lögðu hönd á plóg við að gera þessa sýningu sem glæsilegasta, A-landsliðsknöpum sem sögðu okkur frá sínum þjálfunaraðferðum og hvað þeir eru að glíma við í þjálfun með sína hesta, U21-landsliðshópnum sem aðstoðaði við undirbúning og framkvæmd sýningar, fyrirtækjum og einstaklingum sem lögðu fram styrki; Esja gæðafæði, Kjötkompaní, Sælgætisgerðin Góa, Nói-Síríus, ÍSAM, Ó. Johnson og Kaaber, DD Design og öllum öðrum sem lögðu sitt að mörkum. Síðast en ekki síst fá áhorfendur þakkir fyrir góða mætingu og líflegar spurningar.
Takk!