LH og Úrval Útsýn í samstarf

29.08.2014
Axel Ó., Margrét Helgadóttir og Haraldur Þ.

Landssamband hestamannafélaga og Úrval Útsýn ehf. undirrituðu í dag samning um samstarf varðandi heimsmeistaramót íslenska hestsins sem fram fer í Herning í Danmörku í ágúst 2015.

Markmið samningsins er að styrkja landslið Íslands til þátttöku á heimsmeistaramótinu. 

„Við höfum átt gott samstarf við hestamenn varðandi ferðir á heimsmeistaramótin um árabil, og það er mikið fagnaðarefni að þetta góða samstarf haldi áfram“ segir Margrét Helgadóttir framkvæmdastjóri Úrvals Útsýnar.

Með samningnum er Úrval Ústsýn þar með orðinn einn af aðalstyrktaraðilum Landssambands hestamannafélaga.

Úrval Útsýn mun bjóða fjölbreyttar ferðir á mótið með margs konar samsetningum á flugi, gistingu, akstri til og frá fulgvelli og aðgöngumiðum á mótið.  Úrval Ústsýn hefur tryggt sér fjölda sæta í stúku til þess að tryggja að Íslendingar sem fara í þessa ferð geti haldið hópinn og stutt landsliðið með glæsibrag.

Samningurinn felur í sér að af hverri bókaðri ferð á heimsmeistaramótið í Herning með Úrval Ústsýn, gengur hluti kaupverðsins til styrktar íslenska landsliðsins. 

Axel Ómarsson framkvæmdastjóri Landssambands hestamannafélaga er að vonum ánægður með framhald þessa góða samstarfs „Við vonumst til að fá yfir þúsund Íslendinga með okkur til Herning á næsta ári með Úrval Útsýn, og styðja þar dyggilega við bakið á landsliðinu okkar“.