LM2016 SKAGFIRÐINGAR BJÓÐA HEIM

27.01.2016

 

Skagfirskir hestamenn ætla að taka vel á móti gestum sem koma með hross til keppni á Landsmótinu á Hólum næsta sumar.  Á opnum fundi um skipulag mótsins sl. laugardag tilkynnti Ingimar Ingimarsson sem unnið hefur að skipulagi hesthúsmála fyrir mótið að skagfirskir hestamenn hyggist bjóða keppendum á Landsmótinu ókeypis hesthúspláss á meðan á mótinu stendur.  Þetta endurspeglar enn og aftur þá miklu samstöðu sem er um verkefnið í Skagafirði þar sem allir ætla að leggjast á eitt til að gera Landsmótið á Hólum glæsilegan viðburð.  Fyrirkomulag á bókunum í þessi hesthússpláss verður kynnt síðar.

Vinna stendur ennfremur yfir varðandi skipulag á nýtingu þess mikla hesthúspláss sem er á mótssvæðinu á Hólum, niðurstaða þeirrar vinnu verður kynnt innan tíðar, en stefnt er að því að bjóða aðstöðuna þar fyrir keppendur á keppnisdegi, en engin langtímapláss verða í boði inni á mótssvæðinu.  Ennfremur er unnið að skipulagi beitarhólfa fyrir keppendur á mótssvæðinu.

Á myndinni sjást Ingimar Ingimarsson fyrrum kennari við Bændaskólann á Hólum og Lárus Ástmar Hannesson, fyrrverandi nemandi hans þar á fundinum sl. laugardag.