Fræðsla og líkamlegar mælingar á landsliði LH

16.03.2021

Afreksstarf LH er margþætt og ýmis verkefni í gangi. Hæfileikamótunarhópar fyrir unglinga koma saman mánaðarlega ásamt því að hittast á fjarfundum með fyrirlesurum. Yfirþjálfari hæfileikamótunar er Sigvaldi Lárus Guðmundsson. U21-landsliðsknaparnir æfa hver með sínum þjálfara en landsliðsþjálfarinn Hekla Katharína Kristinsdóttir fylgist vel með hverjum og einum knapa og gerir reglulega stöðumat á hópnum. 

Sigurbjörn Bárðarson A-landliðsþjálfari fylgist grannt með A-landsliðsknöpunum, framgangi þeirra í keppni, sérstaklega í Meistaradeildinni, ásamt því að vera í stöðugu sambandi við þá og gefa þeim góð ráð og leiðbeiningar.

Á dögunum kom A-landliðið saman og gerðar voru mælingar á styrk, jafnvægi og þoli. Slíkar mælingar eru orðnar fastur liður í landsliðsstarfinu og gefa knöpum upplýsingar um líkamlegt ástand, ásamt því að vera nauðsynleg gagnasöfnun fyrir íþróttahreyfinguna. Niðurstöður mælinganna eru settar inn í miðlægan gagnagrunn ÍSÍ og nýtast til samanburðar við stöðu afreksíþróttafólks í öðrum íþróttagreinum.

Að loknum mælingunum var haldinn fundur þar sem formaður landsliðsnefndar Kristinn Skúlason og landsliðsþjálfarinn, Sigurbjörn Bárðarson fóru yfir landsliðsstarfið og horfurnar varðandi HM í Herning í ágúst. Allt starf landsliðsnefndar og þjálfara miðar að því að HM verði haldið í sumar, hvort sem mótið verður með venjubundum hætti eða skertum áhorfendafjölda og ljóst er að Ísland stefnir með sitt sterkasta lið á HM í ágúst.

Deginum lauk svo með afar fróðlegum fyrirlestri Mette Mannseth yfirreiðkennara á Hólum, um líkamsbeitingu hestsins.

LH þakkar öllum sem lögðu hönd á plóg við mælingarnar, Mette fyrir góðan fyrirlestur og knöpunum fyrir frábæra mætingu og góða stemmningu. Áfram Ísland.