Meðalaldur liðsmanna 27 ár

16.01.2017

Fjórða liðið sem við kynnum til leiks í Meistaradeildinni er lið Hrímnis/Export hesta. Liðið er saman sett af ungum knöpum en meðalaldur liðsins er 27 ár. Hrímnir var fyrst með lið í deildinni árið 2010 en Export hestar bætust við árið 2012.

Lið Hrímnis endaði í öðru sæti í liðakeppninni 2011. Skipun liðsins er nokkuð breytt en Sigurður Óli Kristinsson og Ólafur Andri Guðmundsson eru báðir hættir í liðinu en í staðinn eru komin Helga Una Björnsdóttir og Kári Steinsson. Aðrir liðsmenn eru Eyrún Ýr Pálsdóttir, liðstjóri, Hanna Rún Ingibergsdóttir og Þórarinn Ragnarsson.

Eyrún Ýr Pálsdóttir er úrskrifaður tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Eyrún hefur verið ötul á keppnisbrautinni og náð góðum árangri en hún sigraði A flokkinn á síðasta Landsmóti á Hrannari frá Flugumýri II og varð Íslandsmeistari í fimmgangi 2015.

Hanna Rún Ingibergsdóttir kom ný inn í deildina í fyrra. Hún útskrifaðist vorið 2015 sem tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hún hefur verið virk á keppnisbrautinni síðastliðin ár og hefur meðal annars verið í úrslitum á Íslandsmótum og Landsmótum. Tók þátt í KS-deildinni á meðan hún stundaði nám á Hólum og lenti í 4 sæti í einstaklingskeppninni 2015. Hanna Rún starfar við tamningar og þjálfun í Kirkjubæ.

Helga Una Björnsdóttir stundar nám við Háskólann á Hólum. Helga Una er reynslu mikill knapi þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur skapað sér gott orð bæði á keppnisbrautinni sem og kynbótabrautinni, Helga Una setti heimsmet á Sendingu frá Þorlákshöfn sumarið 2015 þegar hún sýndi hana í 8,64, hæstu aðaleinkunn sem klárhross hefur hlotið. Helga Una hefur einnig náð góðum árangri í ræktun og vakti hún mikla athygli á Bikari frá Syðri-Reykjum sem er úr hennar ræktun. Helga er einnig Íslandsmeistari á Besta frá Upphafi í 100m. skeiði.

Kári Steinsson starfar sem tamningamaður á Miðási í Ásahrepp. Hann var kosinn gæðingaknapi ársins 2015 og hefur verið áberandi á keppnisbrautinni undan farin ár. Hann hefur m.a. unnið Landsmót í ungmennaflokki og með kynbótahross ásamt því að hafa orðið Íslandsmeistari. Kári hefur vakið athygli meðal annars á hrossunum Klerki frá Bjarnanesi, Tóni frá Melkoti, Maríu frá Feti, Binný frá Björgum og Óskahring frá Miðási.

Þórarinn Ragnarsson er útskrifaður tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Þórarinn stundar þjálfun og tamningar í Vesturkoti á Skeiðum. Þórarinn hefur náð góðum árangri á keppnisbrautinni en hann sigraði m.a. A flokkinn á LM2014 á Spuna frá Vesturkoti og var í A úrslitum í tölti á sama móti á Þyt frá Efsta-Dal. Þytur og Þórarinn sigruðu einnig Þá alla sterkustu, ístöltsmótið, sem haldið var vorið 2014. Þórarinn var valin gæðingaknapi ársins 2014.

Hrímnir framleiðir gæða hnakka, reiðtygi og fatnaði fyrir kröfuharða hestamenn. Hnakkarnir eru framleiddir af einum virtasta söðlasmiði heims, en lögð hefur verið áhersla á gæði, næmni og gott jafnvægi. Hnakkarnir eru seldir í 15 löndum og notaðir af fjölda fagmanna. Þá framleiðir Hrímnir mikið úrval af hestvænum reiðtygjum og vönduðum reiðfatnaði, þar sem er lögð áhersla á að nýta nýjustu tækni í framleiðslu og úrvals efni.

Export hestar hafa áralanga reynslu í útflutningi á hrossum og sjá um alla þætti varðandi útflutninginn, þ.e.a.s. að koma hestinum frá seljanda til kaupanda, frágangur á öllum fylgiskjölum s.s. tollpappírum og vottorðum og flutningur til flugvallar. Þá aðstoðar fyrirtækið innlenda sem erlenda kaupendur að finna rétta hrossið.