Meira stóðhestastuð! -Heimsmeistari í heimsókn

06.04.2012
Heimsmeistarinn Anne Stine Haugen tekur þátt í Stóðhestaveislunni í Ölfushöllinni á laugardagskvöldið. Ljósm.: HGG
Stjörnurnar streyma á stóðhestaveisluna á laugardaginn og nú er staðfest að Sæsbörnin Konsert landsmótssigurvegari og Kveðja frá Korpu munu mæta sem og Auðnusynirnir flottu frá Lundum II, þeir Alur og Asi. Stjörnurnar streyma á stóðhestaveisluna á laugardaginn og nú er staðfest að Sæsbörnin Konsert landsmótssigurvegari og Kveðja frá Korpu munu mæta sem og Auðnusynirnir flottu frá Lundum II, þeir Alur og Asi.

Allir þessir hestar, Konsert, Alur og Asi gerðu það gott í meistaradeildinni í hestaíþróttum í vetur og sýna það og sanna að alvöru gæðingar virka ekki bara á kynbótabrautinni. Dætur Leiknis frá Vakurstöðum koma líka í höllina, þar á meðal gersemin Flétta frá Árbakka og þeir Skýr frá Skálakoti og Sproti frá Sauðholti, sem báðir voru á meðal efstu 4v hesta á LM í fyrra, mæta sprækir til veislunnar.
Enn einn hesturinn sem gert hefur það gott á keppnisvellinum er Tónn frá Melkoti og hann verður að sjálfsögðu á staðnum enda vanur því að eiga góðar stundir í Ölfushöllinni og hinn glæsilegi Gaumur Orrason frá Dalsholti lætur sig ekki vanta.
Góðir gestir munu koma alla leið frá Danmörku, en heimsmeistarinn í fjórgangi Anne Stine Haugen og hennar maður Agnar Snorri Stefánsson, ætla að bregða undir sig betri fætinum og vera með í fjörinu og þau munu að sjálfsögðu verða vel ríðandi og aldrei að vita hverju íslenskir stóðhestaeigendur gauka að þeim.
Forsalan er enn í fullum gangi og miðarnir fara hratt. Hægt er að nálgast miða hjá N1 á Ártúnshöfða, í Hveragerði, á Selfossi og á Hvolsvelli og þar er opið á föstudaginn langa. Einnig eru miðar til sölu í Ástund, Líflandi, Hestum og mönnum, Baldvini og Þorvaldi og á veitingastaðnum Árhúsum á Hellu. Forsalan stendur til hádegis á laugardag. Á morgun sendum við út lista yfir þá hesta sem enn eru ókynntir - fylgist með á vefmiðlum hestamanna!