Meistaradeild 2012

17.01.2012
Nú styttist í að níunda mótaröð Meistaradeildar í hestaíþróttum hefjist en keppni hefst fimmtudaginn 26. janúar á fjórgangi. Nú styttist í að níunda mótaröð Meistaradeildar í hestaíþróttum hefjist en keppni hefst fimmtudaginn 26. janúar á fjórgangi.

Í ár eins og undanfarin ár er deildin skipuð mörgum af sterkustu knöpum landsins og eru sjö heimsmeistarar skráðir til leiks í vetur.

Eingöngu fjórir knapar hafa sigrað deildina í þau átta skipti sem hún hefur verið haldin og eru þrír þeirra skráðir til leiks í vetur en gaman verður að sjá hvort nýtt nafn verður ritað á bikarinn þegar flautað verður til leiksloka föstudaginn 30. mars. Hér að neðan má sjá sigurvegara deildarinnar frá upphafi:

Meistari 2001    Sigurður Sigurðarson
Meistari 2002    Sigurbjörn Bárðarson
Meistari 2006    Atli Guðmundsson
Meistari 2007    Viðar Ingólfsson
Meistari 2008    Viðar Ingólfsson
Meistari 2009    Sigurbjörn Bárðarson
Meistari 2010    Sigurbjörn Bárðarson
Meistari 2011    Sigurður Sigurðarson

Sala á ársmiðum er í fullum gangi hjá liðunum og í verslunum Top Reiter, Líflandi og Baldvini og Þorvaldi á Selfossi. Ársmiðinn kostar 5.000 krónur og innifalinn í miðaverðinu er dvd diskur frá deildinni 2011. Aðgöngumiði á hvert mót deildarinnar er 1.500 krónur því er um að gera fyrir þá sem hafa í huga að mæta á flest mót deildarinnar í vetur að tryggja sér ársmiða.

Mótin eru öll haldin í Ölfushöllinni, Ingólfshvoli, nema eitt en það er Skeiðmótið sem fer fram 24. mars.

Dagskrá Meistaradeildar 2012:
26. janúar, fimmtudagur - Fjórgangur
9. febrúar, fimmtudagur - Gæðingafimi
23. febrúar, fimmtudagur - Tölt
8. mars, fimmtudagur - Slaktaumatölt & flugskeið
24. mars, laugardagur - Gæðingaskeið og 150m skeið - úti
30. mars, föstudagur - Lokamót Fimmgangur og verðlaunaafhendingar með grilli og fjöri