Meistaradeild 2012 - Lið Lýsis

10.01.2012
Fjórða liðið sem við kynnum til leiks er elsta liðið í deildinni en það er lið Lýsis. Liðið bar sigur úr býtum í liðakeppninni 2011. Fjórða liðið sem við kynnum til leiks er elsta liðið í deildinni en það er lið Lýsis. Liðið bar sigur úr býtum í liðakeppninni 2011.

Tvær breytingar hafa orðið á liðinu frá því í fyrra en liðsstjórinn í ár er sá sami og undanfarin ár, Sigurður Sigurðarson en með honum eru þeir Eyjólfur Þorsteinsson, Sigurbjörn Bárðarson og Sylvía Sigurbjörnsdóttir.

Sigurður Sigurðarson, liðsstjóri, rekur tamningastöð á Þjóðólfshaga ásamt eiginkonu sinni. Sigurður er fyrsti sigurvegari Meistaradeildarinnar en hann sigraði hana árið 2001 og svo aftur árið 2011. Hann hefur setið nokkrum sinnum í íslenska landsliðinu, er heimsmeistari, margfaldur Íslandsmeistari, heimsmethafi í 100m skeiði og mætti lengi telja áfram.

Eyjólfur Þorsteinsson er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hann hefur verið að gera góða hluti á keppnisvellinum undanfarin ár og er meðal annars margfaldur Íslandsmeistari auk þess að hafa orðið heimsmeistari í samanlögðum greinum á HM 2011.

Sigurbjörn Bárðarson er sá knapi sem hefur oftast sigrað Meistaradeildina eða þrisvar sinnum, árin 2002, 2009 og 2010. Sigurbjörn hefur unnið flesta titla sem hægt er að vinna í hestaíþróttum ásamt því að vera eini hestamaðurinn sem hefur hampað titlinum íþróttamaður ársins.

Sylvía Sigurbjörnsdóttir er tamningmaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hún er jafnframt nýr knapi í deildinni. Sylvía hefur átt góð gengi að fagna allt frá því í barnaflokki og á marga glæsta sigra í farteskinu.

Lýsi var stofnað 1938. Það framleiðir afurðir úr lýsi til manneldis. Sem leiðandi fyrirtæki á heimsvísu leggur Lýsi mikla áherslu á gæði og gæðastjórnun við framleiðslu vörunnar. Í apríl 2007 fékk Lýsi Útflutningsverðlaun forseta Íslands. Fyrirtækið fékk verðlaunin "fyrir þann einstaka árangur sem fyrirtækið hefur náð í sölu- og markaðsmálum á afurðum úr lýsi og fyrir þá framsýni sem fyrirtækið hefur sýnt í vöruþróun og eflingu þekkingar og færni á sínu sviði."