Menntanefnd LH auglýsir netkosningu á reiðkennara ársins 2023

23.11.2023

Menntanefnd LH auglýsir netkosningu á reiðkennara ársins 2023. Kosningu lýkur á miðnætti fimmtudaginn 1. desember. Það nafn sem verður fyrir valinu verður síðan sent í kosningu á vefsíðu FEIF (FEIF instructor/trainer of the year), þar sem kosið verður um einn reiðkennara frá hverju FEIF landi.

Tilnefndir eru:

Finnbogi Bjarnason: Finnbogi starfar sem reiðkennari og við þjálfun hrossa bæði á Íslandi og í Sviss. Hann kennir við hestabraut FNV á Sauðárkróki sem er þriggja ára námsbraut í hestamennsku. Einnig er hann kennari í reiðmanninum á Sauðárkróki þar sem fjöldi nemenda eru skráðir en það er nám í reiðmennsku og hestafræðum á vegum  Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann er einnig reiðkennari í æskulýðsstarfi Skagfirðings og hefur verið síðustu ár þar sem hann kennir keppnisþjálfun og almenna reiðkennslu krakkanna en Finnbogi hefur sjálfur töluverða reynslu í keppni ásamt því að kenna öflug námskeið fyrir félagsmenn Skagfirðings. Í Sviss hefur hann einnig verið virkur í reiðkennslu bæði með ungmennum og fullorðnum, meðal annars aðstoðarmaður og þjálfari nokkura keppenda í Svissneska landsliðinu á HM í Hollandi sl. sumar. Finnbogi hefur mikinn metnað, ávallt jákvæður fyrir verkefninu og nemendur láta afar vel af honum.

Hekla Katharína Kristinsdóttir: Hekla hefur mikinn metnað fyrir hönd nemanda sinna en gerir á sama tímaraunhæfar kröfur byggðar á getustigi sinna nemenda. Hekla hefur einstakt lag á að miðla reynslu sinni við þjálfun og keppni. Hún setur alltaf hag og velferð hestsins í fyrsta sæti og miðlar því skýrt til sinna nemenda. Enginn afsláttur gefinn þar. Hekla er kennari með mikla reynslu, þekkingu og metnað til framfara, hún hefur ástríðu til að miðla sem og hæfnina sem til þarf. 

Þorsteinn Björnsson: Þorsteinn er reiðkennari við Háskólann á Hólum. Kennari sem hefur haft mótandi áhrif á reiðkennara framtíðarinnar til fjölda ára og leynir mikið á sér. Nemendur þekkja ekki endilega margir til hans þegar þeir mæta en hann kemur sterkur inn og kemur því nemendum oftar en ekki á óvart. Hann lætur nemendum sínum líða vel og fær fólk til að velta sér ekki um of uppúr mistökum sínum. Þess utan er hann einnig farinn að kenna Reiðmanninn og er þannig að hafa áhrif á hinn almenna reiðmann á Íslandi í auknum mæli.

 

Kjósa reiðkennara ársins