Metamót Andvara - dagskrá og skráning

27.08.2012
Þá fer að styttast í eitt skemmtilegasta mót ársins, Metamót Andvara 2012. Mótið fer fram á keppnissvæði Andvara að Kjóavöllum, dagana 31. ágúst – 2. september.

Þá fer að styttast í eitt skemmtilegasta mót ársins, Metamót Andvara 2012. Mótið fer fram á keppnissvæði Andvara að Kjóavöllum, dagana 31. ágúst – 2. september.

Metamótið er einstakt því þar er gæðingakeppni riðin á beinni braut og „allt leyfilegt“. Skeið og töltkeppni eru þó lögleg og með hefðbundnu sniði.

Þar sem einungis verður boðið uppá opinn flokk í gæðingakeppninni verður í ár sú nýbreytni, að auk hefðbundinna A og B úrslita verða einnig riðin C úrslit, sem verður vonandi til þess að virkja metnaðarfulla áhugamenn til að skrá sig til leiks.

Nýtt á dagskrá Metamóts er svokallað "RÖKKURBROKK". þá er keppt í fljúgandi 100 m kappreiðabrokki með tímatöku. Ábyggilegt er að þetta verður þrælskemmtileg keppni og góð upphitun fyrir áhorfendur fyrir ljósaskeiðið strax á eftir. Metamótsnefnd hvetur knapa, jafnt áhugamenn sem meistara, til að freista gæfunnar og reyna þessa bráðskemmtilegu keppnisgrein.

Eftirfarandi dagskrárdrög eru birt með fyrirvara um breytingar eftir að skráningu lýkur.

Föstudagur
14:00 Dagskrá hefst
- B-flokkur (bein braut) – opinn flokkur
- Matur
- B-flokkur (bein braut) – opinn flokkur
- Rökkurbrokk (forkeppni)
- Ljósaskeið (forkeppni)

Laugardagur
08:00  Dagskrá hefst
- A-flokkur (bein braut) –opinn flokkur
- Skeið 150m
- Skeið 250m
- Tölt T3 (hringvöllur) – opinn flokkur
- C-Úrslit B-fl.
- C-Úrslit A-fl.
- B-úrslit tölt
- Matur
- B-úrslit B-fl.
- B-Úrslit A-fl.
- Rökkurbrokk
- Ljósaskeið
Kvöldvaka, uppboð

Sunnudagur
13:00 Dagskrá hefst  
- 250m skeið
- 150m skeið
- A-úrslit tölt
- Forstjóratölt
- A-úrslit B-fl.
- A-úrslit A-fl.

Eftirfarandi breytingar eru á fyrirkomulagi mótsins í ár:

  •     Einungis verður í boði opinn flokkur í öllum greinum. Áhugamenn eru þó eindregið hvattir til að láta það ekki draga úr sér að taka þátt, enda ekki á hverjum degi sem menn fá tækifæri til að etja kappi við meistarana.
  •     A, B og C úrslit í gæðingakeppninni
  •     Sem fyrr verða auk þess sæti í A-úrslitum í A og B flokki seld á uppboði  á skemmtikvöldinu.
  •     Aldurstakmark í öllum greinum er 18 ára (á árinu).
  •     Hápunktur Metamótsins er hið margrómaða 100 metra skeið í flóðlýsingu sem hefst kl. 22 á laugardagskvöldinu – engar breytingar á því.
  •     Sem fyrr verða peningaverðlaun veitt í efstu sætum í öllum skeiðgreinum.
  •     „Rökkurbrokk“ verður haldin til skemmtunar og upphitunar í rökkrinu fyrir ljósaskeiðið. Þá er keppt í fljúgandi 100 m kappreiðabrokki með tímatöku – við reiknum með Íslandsmeti !
  •     Forstjóratöltið verður auðvitað á sínum stað, nema í ár verður riðið á beinni braut og sýnt hægt tölt og fegurðartölt. Áhugasamir tilkynni þátttöku: valdi@inter.is


Skráningargjald er 4.500 kr í öllum greinum og 3.000 kr í Rökkurbrokki. Skráning í alla flokka fer fram á www.skraning.is. Gefa þarf upp IS nr. hests, kennitölu og síma knapa við skráningu. Skráningargjald greiðist einnig við skráningu. Ekki verður tekið við skráningum í síma.
Lokað verður fyrir skráningu þriðjudaginn 28. ágúst kl. 22 stundvíslega.

Endanleg dagskrá verður kynnt eftir að skráningu lýkur. Allar upplýsingar verða birtar á www.andvari.is.