Miðasala hafin á Landsmót á Hólum

05.08.2015
Sigurður Ingi og Lárus Ástmar opnuðu miðasöluna

Forsala miða á Landsmót hestamanna sem fram fer á Hólum í Hjaltadal næsta sumar hófst í dag á vefnum www.landsmot.is og á www.tix.is. Það voru Sigurður Ingi Jóhannsson Landbúnaðarráðherra, Sigríður Hallgrímsdóttir aðstoðarmaður menntamálaráðherra og Lárus Ástmar Hannesson formaður stjórnar Landssambands Hestamannafélaga og stjórnar LM sem opnuðu miðasöluna á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem nú fer fram í Herning í Danmörku. Þar er landsmótið með öflugt kynningarstarf þar sem gestir fá m.a. að smakka íslenskar kræsingar eins og hangikjöt og Hólableikju, hlýða á íslenska tónlist um leið og þeir fræðast um komandi Landsmót. Á næsta ári verða fimmtíu ár liðin frá Landsmóti á Hólum og því viðeigandi að þessi stórviðburður hestamanna snúi aftur á þetta forna menntasetur þar sem háskólanám í hestamennsku fer fram við Háskólann á Hólum. Framkvæmdir við nýja og glæsilega vallaraðstöðu standa nú yfir á Hólum.

Að sögn Áskels Heiðars Ásgeirssonar framkvæmdastjóra Landsmóts á Hólum sem stýrir kynningarstarfinu í Herning gera skipuleggjendur sér vonir um 8-10 þúsund gesti á mótið næsta sumar og þar af 2-3 þúsund erlenda gesti. HM í Herning er því mikilvægur staður til að kynna komandi Landsmót fyrir íslandshestafólki sem þangað kemur víða að. Áskell Heiðar segir alla ætla að leggjast á eitt, heimafólk, sveitarfélagið Skagafjörð og félagsfólk í hestamannafélögum, bæði í Skagafirði og annarsstaðar til að gera landsmótið á Hólum að eftirminnilegum viðburði. Á næsta ári verða fimmtíu ár liðin frá Landsmóti á Hólum og því viðeigandi að þessi stórviðburður hestamanna snúi aftur á þetta forna menntasetur þar sem háskólanám í hestamennsku fer fram við Háskólann á Hólum.

Sérstaklega hagstætt er að kaupa miða á Landsmót í forsölu, lægstu verðin eru í boði til næstu áramóta, þá hækkar verðið og dýrast verður að versla miða í hliðinu á mótið. Verð miða í forsölu hefur verið lækkað frá síðasta Landsmóti og verð til unglinga lækkað verulega og börn undir 14 ára aldri frá frítt á mótið. Með þessu vilja aðstandur mótsins leggja áherslu á Landsmót er fjölskylduskemmtun, en fjölmargt verður gert til að búa til afþreyingu fyrir alla fjölskylduna.