Mikil stemming fyrir Stóðhestaveislum norðan og sunnan heiða

18.03.2011
Agnar Róbertsson hrossabóndi og listmálari á Jaðri málaði þessa glæsilegu mynd af Kjarval í tilefni Stóðhestaveislu 2011.
 Hrossarækt.is stendur fyrir stóðhestasýningum norðan og sunnan heiða í byrjun apríl. Föstudagskvöldið 1. apríl verður Stóðhestaveisla í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki þar sem heiðurshestur sýningarinnar verður höfðinginn Kjarval frá Sauðárkróki.  Hrossarækt.is stendur fyrir stóðhestasýningum norðan og sunnan heiða í byrjun apríl. Föstudagskvöldið 1. apríl verður Stóðhestaveisla í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki þar sem heiðurshestur sýningarinnar verður höfðinginn Kjarval frá Sauðárkróki. Sunnlenska veislan verður svo í Ölfushöllinni laugardaginn 9. apríl þar sem fjörið byrjar á ungfolasýningu um morguninn og svo tekur Stóðhestaveislan við. Heiðurshestur sýningarinnar fyrir sunnan verður gæðingurinn mikli Oddur frá Selfossi.
Um þrjátíu stóðhestar munu koma fram á hvorri sýningu og þar verður margt spennandi að sjá. Fullskráð er orðið á sýninguna í Ölfushöllinni og síðustu plássin að fyllast fyrir norðan. Hestakosturinn verður gríðarlega spennandi en hestarnir verða kynntir nánar í aðdraganda sýninganna. Jafnhliða sýningunum kemur út glæsilegt stóðhestablað sem gestir fá afhent, auk þess sem það verður til sölu í verslunum N1 og í hestavörubúðum. Hestarnir eru að auki allir kynntir á vefnum www.stodhestar.com.
Hrossaræktarfólk norðan og sunnan heiða er hvatt til að taka sýningardagana frá strax enda mikil stemming fyrir sýningunum. Forsala mun fara fram hjá N1 og hefst hún miðvikudaginn 24. mars nk. Nánar auglýst síðar.
Fylgist með á vefmiðlum hestamanna og síðu Hrossaræktar.is á Facebook. Þessu má enginn áhugamaður um hrossarækt missa af!