Myndefni frá landsmótum 1954-2016 í WorldFeng

13.12.2017
Lárus Ástmar og Ólafur undirrita samninginn

Í Herning árið 2016 undirrituðu fulltrúar Landsambands hestamannafélaga (LH) og Bændasamtök Íslands (BÍ) samstarfssamning um að það myndefni sem verður til á landsmótum verði hluti af upprunaættbók íslenska hestsins, WorldFeng. Hugmyndin er að til verði einstakur öflugur gagnagrunnur sem hefur menningarsögulegt og ræktunarlegt gildi fyrir íslenska hrossarækt og hestamennskuna. WorldFengur er samstarfsverkefni BÍ og FEIF, alþjóðasamtaka eigenda íslenskra hesta, þar sem öll aðildarfélög nota kerfið til að halda utan um ættbækur sínar á einum stað. Í dag eru skráð um 473 þúsund hross í upprunaættbókina og þar af eru um 270 þúsund hross skráð á lífi í 30 löndum.

Verkefnið hefur gengið nokkuð hratt fyrir sig, en inn á WorldFeng eru komin mótin 2012, 2014 og 2016. Mjög stór skref voru tekin í þessu mikilvæga verkefni á síðustu vikum þegar LM keypti annarsvegar höfundaréttinn af landsmótunum 2000, 2002, 2004, 2006 og 2008 af Sveini M. Sveinssyni í Plús Film og hinsvegar þegar LH keypti einkarétt af Ólafi Guðmundssyni í Bergvík til að nýta allt unnið efni frá landsmótunum 1954, 1958, 1966, 1970, 1974, 1978, 1982 og 1986. En faðir Ólafs, Guðmundur Ólason heiðursfélagi LH hafði safnaði þessu efni saman. Þess má geta að ef hann hefði ekki verið eins framsýnn og raun ber vitni og ekki lagt í þá vegferð að finna þetta efni, láta talsetja það og varðveitt væri það mögulega glatað. Guðmundur var í stjórn Fáks árin 1971-1976 og formaður félagsins árin 1976-1982. Guðmundarstofa í Fáki er einmitt nefnd eftir Guðmundi, það var því vel til fundið að skrifað væri undir samninginn við Ólaf þar.

Ætlunin er að setja hápunkta þessara móta inn á WorldFeng á næstunni og fara svo í enn meiri vinnu við tengja myndefnið við hestana á næsta ári, eins og gert hefur verið með þau Landsmót sem þegar eru komin inn í WorldFeng. Þannig að þegar hesti sem keppt hefur á landsmóti er flett upp, þá sé hægt að sjá myndbrot af honum á þeim mótum sem hann kom fram, hvort sem það var í kynbótasýningu eða í keppni.

Verkefnið er kostnaðarsamt en það fékk styrk í haust frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu upp á 1,5 milljón króna til myndefniskaupa. Það dugar þó skammt og verið er að leita leiða til fjármögnunar. Þess vegna er aðgengi að myndefninu selt í formi ársáskriftar. Þeir sem þegar hafa aðgang að WorldFeng geta keypt áskrift inni á síðunni og þannig stutt við þetta mikilvæga verkefni og um leið fengið aðgang að myndefninu.

Tryggið ykkur jólatilboð á ársáskrift á aðeins 3.900 kr. Tilboðið gildir aðeins fram að áramótum

Með aðganginum getur þú séð:

  • videoupptökur af öllum kynbótahrossum á Landsmótum 2014 og 2016.
  • videoupptökur af öllum hrossum í gæðingakeppni, barna- unglinga og ungmennaflokki á Landsmótum 2012, 2014 og 2016.
  • horft á úrslit í öllum flokkum á Landsmótum 2012, 2014 og 2016

Þú getur leitað eftir:

  • nafni hests og séð videoupptökur af þeim keppnum sem hann hefur tekið þátt í á þessum Lansdmótum.
  • nafni knapa og séð videoupptökur af öllum hrossum sem viðkomandi hefur riðið bæði í kynbótadóm, gæðingakeppni og skeiði á Landsmótum 2014, 2016 og 2012
  • keppnisgrein og séð videoupptökur af öllum sem tóku þátt í þeirri grein og úrslit

Væntanlegt er:

  • Hápunktar landsmóta 1954, 1958, 1966, 1970, 1974, 1978, 1982 og 1986.
  • Hápunktar landsmóta 2000, 2002, 2004, 2006 og 2008
  • Kynbótahross af landsmóti 2012
  • Kynbótahross af Fjórðungsmóti Vesturlands 2017