Niðurstöður ráðstefnu um framtíð landsmóta

22.10.2015

 

Ráðstefna um landsmót hestamanna sem haldin var síðastliðinn laugardag heppnaðist einstaklega vel. Viðar Halldórsson félagsfræðingur sá um og stjórnaði ráðstefnunni en unnið var í hópum og ákveðnum spurningum svarað. Hópstjórar og ritarar hópanna voru á vegum Viðars og stýrðu umræðunni við borðin. Hestamannafélög innan LH sendu fulltrúa og voru um 60 þátttakendur sem tóku þátt.

Að sjálfsögðu var ekki algjör samhljómur með öll mál en þó virtust ráðstefnugestir vera sammála um að ljúka mótinu á laugardegi og seinka því um viku. Mótin eiga að vera með blæbrigðamun miðað við staðsetningu mótanna hverju sinni en þó verður mótshaldari að standast lágmarkskröfur hvað varðar aðstöðu og annað. Ekki var hljómgrunnur mikill fyrir að landsmótin verði alltaf á einum stað,  einhverskonar þjóðarleikvangi. Áhersla var lögð á að fjölbreytta afþreying fyrir börn og unglinga og fyrir þá sem hafa minni áhuga á hestadagskránni. Hátíðin ætti að vera einskonar árshátíð eða uppskeruhátíð hestamanna og þeirra fjölskyldna með gleðina og fagmennsku í fyrirrúmi. 

LH hefur gert samantekt á helstu punktunum sem var mesta samstaðan um en einnig verður gerð ítarlegri skýrsla sem verður gerð opinberleg.