Notkun stangaméla með tunguboga í keppni brýtur í bága við lög um dýravelferð

11.04.2014
Á opnum fundi um velferð íslenska hestsins í gærkvöldi kom fram í máli Sigurborgar Daðadóttur yfirdýralæknis að notkun stangaméla með tunguboga í keppni væri andstæð nýjum lögum um dýravelferð, en þau tóku gildi um síðustu áramót.

Á opnum fundi um velferð íslenska hestsins í gærkvöldi kom fram í máli Sigurborgar Daðadóttur yfirdýralæknis að notkun stangaméla með tunguboga í keppni væri andstæð nýjum lögum um dýravelferð, en þau tóku gildi um síðustu áramót. Þessi niðurstaða yfirdýralæknis er byggð á ítarlegri greiningu gagna frá heilbrigðisskoðunum keppnishesta á LM og ÍM 2012. Sláandi og hámarktæk fylgni reyndist vera á milli áverka á kjálkabeini á tannlausa bilinu  og notkun stangaméla með tunguboga. Skipti þá engu hvort um var að ræða einjárnung eða þrískipt mél. Stangamél með tunguboga reyndust auka hættuna á áverkum á kjálkabeini 75 falt miðað við önnur mél. Notkun þessara méla í keppni fellur þar með undir 17. grein laganna sem kveður á um „markvissa meðferð sem veldur hrossum skaða” sem er óheimil skv. 17. grein laganna. Sömuleiðis vitnaði yfirdýralæknir í 32. grein laganna þar sem m.a. segir „Hver sá sem heldur dýr ber ábyrgð á að starfsaðferðir, tæki, tól og hvers konar útbúnaður sem notaður er á dýr í umsjá hans séu ekki andstæð velferð dýra.”

Upplýsingar um áverka á kjálkabeini og tengsl þeirra við mél með tunguboga komu fyrst fram eftir Landsmót hestamanna 2011. Í kjölfarið fór mikil umræða af stað innan félagskerfis hestamanna og efnt var til fjölda fræðslufunda auk þess sem skýrsla og fræðslugeinar voru birtar bæði á netmiðlum og í tímaritum hestmanna.  Þrátt fyrir vitundarvakningu meðal hestamanna dró ekki úr tíðni áverkanna á LM 2012 og því er nauðsynlegt að grípa til ákveðnari fyrirbyggjandi aðgerða. Yfirdýralæknir leggur áherslu á að Landsamband hestamannafélaga, Félag tamningamanna og Fagráð taki mið af nýjustu þekkingu um áhrif stangaméla með tunguboga á velferð hesta og banni strax notkun þeirra í hvers kyns sýningum og keppni svo ekki þurfi að koma til þvingunarúrræða á grundvelli laga um dýravelferð.  Fundarmenn tóku heilshugar undir þá áskorun.