Nýliðun í hestamennsku – félagshesthús

19.10.2020

Haustið 2019 hóf Landssamband hestamannafélaga (LH) að safna saman upplýsingum um það hvernig staðið er að nýliðun í hestamennsku, þar á meðal upplýsingum um félagshesthús. Undanfarin ár hafa fjögur hestamannafélög starfrækt félagshesthús, Fákur, Sörli, Sprettur og Hornfirðingur.

Á heimasíðu LH er hægt að nálgast samantekt um fyrirkomulag félagshesthúsa hjá þessum fjórum hestamannafélögum og hefur þessum upplýsingum verið deilt til hestamannafélaganna sem hafa getað nýtt sér þær til að auka nýliðun.

Rætt var við umsjónarmenn félagshesthúsa og framkvæmdarstjóra félaganna til að fá innsýn í starfsemi síðustu ára. Plaggið er lifandi og verður bætt í það upplýsingum jöfnum höndum eftir því sem þær berast.

Félagshesthús hestamannafélaga eru ætluð börnum og unglingum sem að eru að stíga sín fyrstu skref í hestaíþróttum. Þar kynnast börn og unglingar almennri reiðmennsku, daglegum störfum í kringum hesta og fleira sem tilheyrir hestamennsku. Þekking og færni sem fæst með þátttöku barna og unglinga í félagshesthúsum er margþætt; þau læra ábyrgð, umgengni og umönnun, kynnast leiðtogahlutverki, fá útiveru og hreyfingu og læra að mynda tengsl við aðra einstaklinga og dýr.

Félagshesthúsin bjóða upp á leigu á aðstöðu og plássi og afnot af hesti ásamt reiðtygjum fyrir þá sem ekki eiga hest. Einnig er boðið upp á pláss fyrir þá sem eiga hest eða hafa aðgang að hesti og reiðtygjum, en vantar aðstöðu og utanumhald.

Starf félagshesthúsa auðveldar börnum og unglingum aðgengi að hestum og þátttöku í hestaíþróttum með það að markmiði að auka nýliðun og kynna þeim heim hestaíþróttarinnar. Þar fá einstaklingar sem ekki hafa tengingu í hestamennsku færi á að kynnast hestamennsku á réttum forsendum og öðrum einstaklingum á svipuðum aldri með sama áhugamál. Það eykur líkur á því að þau kjósi að halda áfram að stunda hestamennsku sem getur skilað sér til baka á margan hátt í félagið.