Nýr framkvæmdastjóri LH og LM

24.02.2014
Axel Ómarsson á Tralla á Íslandsmóti í Mosó 2001.
Axel Ómarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna ehf. og Landssambands hestamannafélaga. „Stjórnir félaganna bjóða Axel velkominn til starfa og vonast til að eiga gott samstarf við hann um þau fjölbreyttu verkefni sem snúa að íslenska hestinum“, segir Haraldur Þórarinsson formaður Landssambands hestamannafélaga.

Axel Ómarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna ehf. og Landssambands hestamannafélaga.   „Stjórnir félaganna bjóða Axel velkominn til starfa og vonast til að eiga gott samstarf við hann um þau fjölbreyttu verkefni sem snúa að íslenska hestinum“, segir Haraldur Þórarinsson formaður Landssambands hestamannafélaga. „Í ár er Landsmótsár og verður mótið haldið á Gaddstaðaflötum, Hellu, þann 30. júní – 6. júlí nk.. Landsmótið er stærsta verkefni félagsins á þessu ári, og undirbúningur fyrir Landsmót gengur vel og er samkvæmt áætlun“.

Axel hefur verið áhugamaður um íslenska hestinn um árabil og hefur áður starfað að félagsmálum sem tengjast hestamennsku, meðal annars sem varaformaður Hestamannafélagsins Harðar og landsþingsfulltrúi.  Axel kom einnig mikið að útflutningi á íslenskum hestum á árunum 1993-1999 og hefur mikla reynslu af markaðsmálum tengdum íslenska hestinum, fyrirtækjarekstri og félagsmálum. „Það er von okkar að með ráðningu Axels geti Landssamband hestamannafélaga blásið til nýrrar sóknar fyrir hestamennsku í landinu“, segir Haraldur.    

Landssamband hestamannafélaga (LH) er æðsti aðili innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) um alla þætti hestaíþrótta og málefni þeim tengdum.  

Landsmót hestamanna er í dag einkahlutafélag (ehf) að 2/3 hluta í eigu Landssambands hestamannafélaga og að 1/3 hluta Bændasamtaka Íslands. Félagið var stofnað árið 2001 með það að markmiði að vera rekstaraðili Landsmótanna.