Ómur frá Kvistum á Allra sterkustu

26.03.2018

Ásamt feikna spennandi töltkeppni þá mun hinn farsæli Ómur frá Kvistum koma fram og gleðja augu áhorfenda.  

Ómur gerði fyrst vart við sig á Landsmótinu á Hellu 2008 en þar hlaut hann sinn hæsta dóm eða 8.85 fyrir hæfileika og 8.61 í aðaleinkunn og með því sigraði hann eftirminnilega 5 vetra flokk stóðhesta með Þórði Þorgeirssyni.  Það var svo 2011 sem þeir Hinrik Bragason mættu á hringvöllinn og stóðu upp sem sigurvegarar í A-flokki gæðinga á Landsmótinu á Vindheimamelum sama ár.

Hann gerði svo vart við sig á nýjan leik á Landsmótinu á Hellu 2014 og hlaut þar 1. verðlaun fyrir afkvæmi - þá var það orðið ljóst að Ómur var einnig búinn að sanna sig sem kynbótahestur og hefur gert æ síðan. En næsta verkefni hjá Ómi, ef allt gengur eftir, verður að taka við heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi á Landsmótinu í Reykjavík í sumar sem mun án efa verða hans stærsti sigur til þessa. 

Kvistir hafa síðustu ár styrkt landsliðið með folatolli undir Óm og í ár verður engin undantekning. Ekki missa af þessu einstaka tækifæri að sjá þennan snilling líða um salinn. 

Forsala aðgöngumiða er í Líflandi Lynghálsi, Top-Reiter Ögurhvarfi og Baldvin og Þorvaldi Selfossi.

Miðinn er á 3.500kr og 1.000kr happdrættismiði í veglegu happdrætti allt til styrktar íslenska landsliðinu í hestaíþróttum. 

Sjáumst á laugardaginn 31. mars í Samskipahöllinni Spretti