Reiðhöll á Iðavöllum í burðarliðnum

25.02.2009
Hestar og menn á Héraði munu væntanlega spóka sig í nýrri reiðhöll að ári. Nýlega var undirritaður samningur um byggingu 1500 fermetra reiðhallar sem byggð verður á Iðavöllum, félagssvæði Freyfaxa. Hestar og menn á Héraði munu væntanlega spóka sig í nýrri reiðhöll að ári. Nýlega var undirritaður samningur um byggingu 1500 fermetra reiðhallar sem byggð verður á Iðavöllum, félagssvæði Freyfaxa. Stofnað hefur verið einkahlutafélag um bygginguna, Reiðhöll á Iðavöllum ehf.. Fest hafa verið kaup á límtréshúsi með yleiningum frá BM Vallá. Björn Sveinsson, tæknifræðingur hjá Verkís, hefur verið ráðinn verkefnastjóri byggingarinnar. Verkþættir við jarðvinnu og uppsetningu byggingarinnar verða boðnir út á næstu dögum.

Reiðhöllin Iðavellir verður tæplega 60 metra löng og 25 metra breið. Staðsetning hennar er óneitanlega skemmtileg, en hún verður byggð við hlið félagsheimilisins Iðavalla (ekki félagsheimili Freyfaxa), sem er í um 300 metra fjarlægð frá núverandi vallarsvæði Freyfaxa. Gert er ráð fyrir að á milli húsanna verði byggð 200 fermetra tengibygging, sem verður í senn andyri, veitinga- og salernisaðstaða. Mun sú bygging nýtast bæði reiðhöllinni og félagsheimilinu, sem áfram verður rekið sem slíkt. Auk þess verður 300 fermetra þjónustubygging og hesthús byggð við reiðhöllina.

Bergur Már Hallgrímsson, stjórnarformaður Reiðhallar á Iðavöllum og formaður Freyfaxa, segir að náðst hafi hagstæðir samningar við BM Vallá.
„Eftir að hafa velt fyrir okkur kostum og göllum hinna ýmsu bygginga var ákveðið að ganga til samninga við BM Vallá. Þeir gátu í ljósi aðstæðna á markaði boðið okkur húsið á afar góðu verði. Við í stjórn reiðhallarinnar erum því afar ánægð og teljum okkur hafa valið besta og hagstæðasta kostinn sem völ var á,“ segir Bergur.
Hann telur að í framhaldinu muni framkvæmdin ganga hratt fyrir sig. Vonast sé til að húsið verði fokhelt í sumar og tilbúið til notkunar á næsta ári.

Myndin er tekin þegar samningur um reiðhöll á Iðavöllum var handsalaður. Fyrir hönd BM Vallá hf. Sigurður Guðjónsson og f.h. Reiðhallar á Iðavöllum ehf, Bergur Már Hallgrímsson formaður hestamannafélagsins Freyfaxa.