Samantekt að loknu Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna 2024

31.07.2024
Árni Björn Pálsson og Kastanía frá Kvistum

Dagana 25-28 júlí fór Íslandsmótið í hestaíþróttum fram á félagssvæði hestamannafélagsins Fáks í Víðidal. Mótssvæðið var í stórgóðu standi eftir Landsmót sem haldið var þar einungis nokkrum vikum fyrr og ljóst á frammistöðu margra hesta og knapa á mótinu að formkúrvan hefur legið uppávið frá því á Landsmóti. Veður setti þó töluvert strik í reikninginn og mikil úrkoma var á mótsdögunum, og þá helst á úrslitadegi mótsins þegar blés einnig hressilega. Knapar, dómarar og starfsfólk mótsins létu veðrið þó ekki á sig fá og skiluðu flottum sýningum í hinum ýmsu greinum hestaíþrótta á mótinu.

Hringvallargreinar

Í fjórgangi fullorðinna leiddu Teitur Árnason á Aroni frá Þóreyjarnúpi og Gústaf Ásgeir Hinriksson á Össu frá Miðhúsum með einkunnina 7,73 en þau Ásmundur Ernir Snorrason á Hlökk frá Strandarhöfði og Guðmunda Ellen Sigurðardóttir á Flaumi frá Fákshólum voru skammt undan með 7,63. Hans Þór Hilmarsson á Fáki frá Kaldbak vann B-úrslitin og vann sér þátttökurétt í A-úrslitum en það var Guðmunda Ellen Sigurðardóttir á Flaumi sem sigraði A-úrslitin og er því Íslandsmeistari í fjórgangi með einkunnina 8,13 eftir frábæra frammistöðu í A-úrslitunum. Sara Sigurbjörnsdóttir varð í öðru sæti og Hans Þór í því þriðja.

Í fjórgangi ungmenna leiddi Jón Ársæll Bergmann á Halldóru frá Hólaborg eftir forkeppni en það var Guðný Dís Jónsdóttir á Hraunari frá Vorsabæ II sem að lokum hampaði titlinum eftir spennandi og skemmtileg úrslit. Jón Ársæll varð annar og Hulda María Sveinbjörnsdóttir á Muninn frá Bergi kom upp úr B-úrslitum og endaði í þriðja sætinu.

Í fimmgangi fullorðinna varð Hans Þór Hilmarsson Íslandsmeistari á Öl frá Reykjavöllum með 7,60 eftir að hafa leitt forkeppnina einnig. Þórarinn Ragnarsson á Herkúles frá Vesturkoti varð annar og Þorgeir Ólafsson á Aþenu frá Þjóðólfshaga í þriðja sæti eftir að hafa unnið sig upp úr B-úrslitum.

Í ungmennaflokknum var það sigurvegari fimmgangs frá liðnu Landsmóti, hann Jón Ársæll Bergmann sem sigraði nokkuð örugglega á Hörpu frá Höskuldsstöðum og hampar Íslandsmeistaratitlinum í fimmgangi ungmenna eftir jafna og góða frammstöðu og frábæra skeiðspretti. Þórgunnur Þórarinsdóttir varð í öðru sæti á Djarfi frá Flatatungu og Védís Huld Sigurðardóttir í því þriðja á Hebu frá Íbishóli. Þórey Þula Helgadóttir á Kjalari frá Hvammi vann B-úrslitin og endaði í fjórða sæti eftir A-úrslit.

Í slaktaumatölti T2 urðu talsverðar sviftingar en Ásmundur Ernir Snorrason og Hlökk frá Strandarhöfði leiddu nokkuð örugglega eftir forkeppni, en Teitur Árnason á Úlfi frá Hrafnagili og Ólafur Andri Guðmundsson og Draumur frá Feti voru í því þriðja. Guðmunda Ellen Sigurðardóttir á Flaumi frá Fákshólum unnu B-úrslit og tryggðu sér þar með sæti í A-úrslitum. Í A- úrslitum var það svo Jakob Svavar Sigurðsson sem varð hlutskarpastur á henni Hrefnu frá Fákshólum, sem er ung hryssa í keppni, eftir dramatísk úrslit. Ásmundur og Hlökk urðu önnur og Teitur Árnason á Úlfi í þriðja sæti.

Í slaktaumatölti ungmennaflokki leiddi Védís Huld Sigurðadóttir á Breka frá Sunnuhvoli eftir forkeppni en Hulda María Sveinbjörnsdóttir og Signý Sól Snorradóttir voru í öðru til þriðja sætinu. Í B-úrslitum var það Herdís Björg Jóhannsdóttir sem var hlutskörpust á Kjarnveigu frá Dalsholti og þær unnu sér rétt til þátttöku í A-úrslitum þar með. Í A-úslitum urðu nokkrar tilfæringar því Signý Sól Snorradóttir á Rafni frá Melabergi stóð að lokum uppi sem sigurvegari og er Íslandsmeistari í T2 ungmenna. Sigurður Baldur Ríkharðssong og Loftur frá Traðarlandi urðu í öðru sæti og Védís Huld á Breka í því þriðja.

Keppni í tölti T1 er ávallt einn af stórviðburðum íslenskra hestamannamóta og að þessu sinni var engin undantekning þar á. Eftir forkeppni var það Árni Björn Pálsson sem leiddi á Kastaníu frá Kvistum með 8,87 í einkunn og Landsmótssigurvegarinn í tölti, Jakob Svavar Sigurðsson á Skarpi frá Kýrholti var annar með 8,77. Stutt þar á eftir voru Páll Bragi Hólmarsson á Vísi frá Kagaðarhóli og Flosi Ólafsson á Röðli frá Haukagili í Hvítársíðu. Í B-úrslitum urðu Ragnhildur Haraldsdóttir á Úlfi frá Mosfellsbæ og Jóhanna Margrét Snorradóttir á Kormáki frá Kvistum jafnar og fóru báðar upp í A-úrslit. Í A-úrslitum má segja að einvígi hafi verið háð á milli Jakobs og Árna Björns sem hafði harma að hefna eftir töltúrslitin á Landsmóti. En að endingu var það einmitt hann Árni Björn á Kastaníu frá Kvistum sem stóð uppi sem sigurvegari með 9,11 í einkunn og er Íslandsmeistari í tölti fullorðinna. Jakob og Skarpur urðu í öðru sæti, rétt á eftir þeim með 9,06 og í þriðja sæti endaði Gústaf Ásgeir Hinriksson á Össu frá Miðhúsum.

Í tölti T1 ungmenna var einnig hörkukeppni en Jón Ársæll Bergmann leiddi töltið eftir forkeppni á Heið frá Eystra-Fróðholti. Matthías Sigurðsson á Tuma frá Jarðbrú var annar og Védís Huld Sigurðadóttir á Breka frá Sunnuhvoli í þriðja sæti eftir forkeppnina. Í B-úrslitum var það Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal sem var hlutskarpastur á Gretti frá Hólum og tók þátt í A-úrslitum. Jón Ársæll og Heiður héldu uppteknum hætti í A-úrslitum töltsins og sigldu heim sigri og eru Íslandsmeistarar í tölti T1 ungmenna eftir sannfærandi sýningar. Í öðru sæti varð svo Íslandsmeistarinn í fjórgangi hún Guðný Dís á honum Straumi frá Hofsstöðum í Garðabæ og Guðmar Hólm á Gretti reið sig alla leið upp í þriðja sætið þar sem hann var jafn Heklu Rán Hannsdóttur og Védísi Huld Sigurðardóttur.

Skeiðgreinar

Þrátt fyrir votviðri og nýafstaðið Landsmót var ekki að sjá að þreyta væri í skeiðhestum á þessu móti og hreint ótrúlegir tímar náðust í kappreiðum á mótinu. Heimsmet var slegið í 150 m skeiði og margir af bestu tímum ársins litu dagsins ljós.

Það er óhætt að fullyrða að Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II séu ótrúlegt par. Fyrr í vor slógu þeir Íslandsmet í 150 m skeiði og nú á Íslandsmóti gerðu þeir gott betur og bættu gildandi heimsmet í greininni þegar þeir hlupu sprettinn á 13,46 sek. Metið bíður staðfestingar. En þeir félagar eru þar með Íslandsmeistarar í 150 m skeiði. Í öðru sæti varð Þórarinn Ragnarsson á Bínu frá Vatnsholti og Daníel Gunnarsson á Skálmöld urðu í því þriðja.

Í 150 m skeiði ungmenna varð Jón Ársæll Bergmann á Rikka frá Stóru-Gröf ytri hlutskarpastur og bætti þar með í titlasafn sitt á þessu móti en hann vann þrjá Íslandsmeistaratitla á mótinu, sannarlega glæsilegur árangur það.

Í 250 m skeiði dró einnig heldur betur til tíðinda, því það er alltaf sterkt þegar hestur hleypur 250 m skeið á tíma undir 22 sek. Daníel Gunnarsson og Kló frá Einhamri 2 gerðu það einmitt í spretti 2 í fyrri umferð 250 skeiðs þegar þau fóru á tímanum 21,98 sek, en það sem þykir tíðindum sæta er að þegar upp var staðið dugði sá tími ekki til verðlauna á mótinu því þau enduðu í 6. Sæti. Það var Sigursteinn Sumarliðason á Krókus frá Dalbæ sem sigraði og er Íslandsmeistari 2024 á tímanum 21,35 sek. Í öðru sæti varð Konráð Valur Sveinsson og Kastor frá Garðshorni 21,53 sek og í þriðja sæti Þorgeir Ólafsson á Rangá frá Torfunesi á 21,60 en auk þeirra voru það Gústaf Ásgeir Hinriksson og Sjóður, Sigurður Sigurðarson og Tromma ásamt fyrrnefndum Daníel á Kló sem fóru á tímum undir 22 sekúndum. Ólíklegt er að það hafi gerst áður að 6 hestar hlaupi brautina á slíkum tímum á sama móti.

100m flugskeið var engin undantekning hvað góða tíma varðar því Konráð Valur og Kastor frá Garðshorni sigruðu greinina á 7,19 sekúndum sem er einungis ögn yfir gildandi Íslandsmeti og Konráð þar með orðinn tvöfaldur Íslandsmeistari. Ingibergur Árnason og Sólveig frá Kirkjubæ urðu í öðru sæti og Sigursteinn og Krókus frá Dalbæ í því þriðja. Tímarnir í 100 m skeiði voru heilt yfir frábærir en 11 hestar fóru á 7,50 sek eða hraðar.

Frábærir tímar náðust einnig í 100m skeiði ungmenna en Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal sigraði á Alviðru frá Kagaðarhóli á tímanum 7,38. Kristján Árni Birgisson á Kröflu frá Syðri-Rauðalæk varð annar og Jón Ársæll Bergmann á Rikka þriðji.

Í gæðingaskeiði fullorðinna var það Jakob Svavar Sigurðsson sem stóð uppi sem sigurvegari á Erni frá Efri-Hrepp með 8,54 í einkunn og er Íslandsmeistari í greininni þar með og bætti þar við öðrum titli sínum á mótinu. Í öðru sæti varð Jóhann Kristinn Ragnarsson á Þórvöru frá Lækjarbotnum og Daníel Gunarsson varð þriðji á Strák frá Miðsitju.

Í gæðingaskeiði ungmenna var það Kristján Árni Birgisson á Súlu frá Kanastöðum sem stóð uppi sem sigurvegari með 7,38 í einkunn. Í öðru sæti varð Lilja Dögg Ágústsdóttir á Stanley frá Hlemmiskeiði 3 og Björg Ingólfsdóttir á Kjuða frá Dýrfinnustöðum varð þriðja.

Samanlagðir sigurvegarar

Í fullorðinsflokki varð Ásmundur Ernir Snorrason samanlagður sigurvegari bæði í báðum greinum. Í fjórgangsgreinum sigraði hann á Hlökk frá Strandarhöfði eftir frábæra frammstöðu í slaktaumatölti og fjórgangi. Í fimmgangsgreinum var það Askur frá Holtsmúla sem fleyttir Ásmundi hátt í fimmgangi, tölti og gæðingaskeiði.

Samanlagður sigurvegari í fjórgangsgreinum í ungmennaflokki varð Þórey Þula Helgadóttir og Hrafna frá Hvammi. Samanlagður sigurvegari í fimmgangsgreinum í ungmennaflokki varð Þórgunnur Þórarinsdóttir á Djarfi frá Flatatungu.

Íslandsmótunum í hestaíþróttum 2024 er þar með lokið. Yngri flokka mótið fór fram á vegum hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ og eldri flokka mótið á vegum hestamannafélagsins Fáks í Víðidal. Landssamband hestamannafélga þakkar öllum knöpum sína þátttöku á glæsilegum mótum og kann mótshöldurum bestu þakkir fyrir sitt framlag við að halda mótin með miklum sóma.