Samantekt frá fimmtudegi á Norðurlandamóti

11.08.2022
Knapar í b-úrslitum í slaktaumatölti ungmennaflokki ásamt þjálfurum íslenska landsliðsins

Í dag hófst keppni á Norðurlandamótinu á forkeppni í tölti og slaktaumatölti í flokki fullorðinna.

Í tölti T1 leiðir Frederikke Stougård á Austra frá Úlfsstöðum en þau keppa fyrir Danmörku. Okkar maður Jakob Svavar Sigurðsson og Hálfmáni frá Steinsholti tryggðu sér sæti í A-úrslitum og eru í fimmta sæti eftir forkeppnina.

Í slaktaumatölti er Julie Louise Christiansen og Felix frá Blesastöðum 1A efst eftir forkeppni en Íslendingar áttu engan keppanda í þeirri grein.

B-úrslit í slaktaumatölti í ungmennaflokki fóru fram í dag en þrír íslenskir knapar áttu sæti þar. Fóru þau þannig að Kristófer Darri Sigurðsson endaði í 7. sæti á Val frá Heggstöðum, Selma Leifsdóttir og Fjalar frá Selfossi í 9. Sæti og Hulda María Sveinbjörnsdóttir og Hetja frá Árbæ í 11. Sæti. Óskum við þessum efnilegu knöpum til hamingju með árangurinn.

Dagurinn endaði á forkeppni í gæðingakeppni. Í unglingaflokki er Matthías Sigurðsson í 4. sæti á Caruzo frá Torfunesi og Guðmar Hólm Íslólfsson Líndal í 5. sæti eftir forkeppni og munu þeir ríða a-úrslit á laugardag.

Í ungmennaflokki er Eysteinn Kristinsson og Laukur frá Varmalæk efstur eftir forkeppni með 8,54 í einkunn, Védís Huld Sigurðardóttir og Riddari frá Hofi er í 6. sæti og tryggðu sér sæti í a-úrslitum. Hulda María Sveinbjörnsdóttir og Glóð frá Háholti er í 10. Sæti og tekur þátt í b-úrslitum.

Í b-flokki fullorðinna er Sigurður Óli Kristinsson efstur eftir forkeppni á Freistingu frá Háholti en hann keppir fyrir Danmörku. Hanna Rún Ingibergsdóttir og Leistur frá Toftinge er sjötta eftir forkeppnina en hún er eini íslenski keppandinn í b-flokki.

Deginum lauk með forkeppni í a-flokki en Sigurður Óli Kristinsson leiðir einnig þar á hestinum Laxnes frá Ekru. Íslenski knapinn James Bóas Faulkner átti góðan dag en hann keppti á tveimur hestum og reið þeim báðum í a-úrslit, Leikur frá Lækjamóti II er í 6. Sæti og Eldjárn frá Skipaskaga er í 7. Sæti eftir forkeppni. Sigurður Vignir Matthíasson og Blikar frá Fossi eru í 12. sæti og b-úrslitum en Hanna Rún Ingibergsdóttir og Frami frá Arnarholl lentu í erfiðleikum á skeiði og enduðu í 17. sæti.

Að lokinni keppni í dag var haldin veisla á vegum mótsins þar sem landslið allra landa hittust og gerðu sér glaðan dag.