Samningur vegna LM 2018 undirritaður

22.01.2016
Undirsskrift í Höfða

 

Samningur um að Landsmót hestamanna árið 2018 verði haldið í Reykjavík var undirritaður í Höfða af Hestamannafélaginu Fáki, Reykjavíkurborg og Landsmóti hestamanna ehf. Landsmót hestamanna er stórviðburður því þar koma saman rúmlega þúsund keppendur af öllu landinu og eru þeir dyggilega hvattir af þeim rúmlega tíu þúsund áhorfendum sem munu sækja Landsmótið sem stendur í heila viku. Áætlað er að um fjögur þúsund erlendir unnendur íslenska hestsins munu koma sérstaklega til landsins á Landsmótið sem mun fara fram á félagssvæði Fáks í Elliðaárdal fyrstu vikuna í júlí 2018.

Samningurinn markar ákveðin tímamót í rekstri Landsmóta hestamanna því Hestamannafélagið Fákur og Reykjavíkurborg munu alfarið taka að sér að reka og halda utan um mótið. Undirbúningur er nú þegar hafinn og stefna mótshaldarar að því að halda glæsilegt mót fyrir keppendur og gesti. Síðast var Landsmót hestamanna haldið í Reykjavík 2012 og tókst það frábærlega enda aðstaðan til stórmótahalds mjög góð á félagssvæði Fáks í Reykjavík.