Fræðslumynd um viðbragð hestsins og sáttmáli hestafólks og annarra vegfarenda

06.05.2021

Sáttmáli hestafólks og annara vegfarenda verður undirritaður 8.maí í félagsheimili Fáks í Víðidal

Formaður reiðveganefndar Fáks, Dagný Bjarnadóttir átti frumkvæði að því fyrir ári síðan, að hafa samband við forstjóra Samgöngustofu um hvort ekki væri tímabært að fjalla um öryggismál ríðandi umferðar. Því var vel tekið og var Einari Magnúsi Magnússyni hjá Samgöngustofu falið að halda utan um verkefnið fyrir þeirra hönd.  Í framhaldinu boðaði Fákur til fundar þar sem settur var saman vinnuhópur aðila frá hagsmunaaðilum hestamennskunnar, Hjörný Snorradóttir fyrir hönd LH, Jelena Ohm fyrir Horses of Iceland og Bergljót Rist fulltrúi reiðskóla- og hestaleiga.  Halldór Halldórsson þáverandi formaður ferða- og samgöngunefndar LH og Katrín Halldórsdóttir frá Vegagerðinni komu inn á síðari stigum.

Undanfarið ár hefur hópurinn fundað reglulega, unnið að handriti og innihaldi fræðslumyndarinnar, Bergljót Rist lumaði á mörgum góðum hugmyndum inn í handritið, enda búin að hugsa um það í tólf ár eða frá því þegar hún fór fyrst á fund Umferðarstofu sem þá töldu að reiðleiðir væru ekki á þeirra borði.

Á síðasta landsþingi LH var samþykkt að Landssamband hestamannafélaga setti fjármagn í verkefnið til þess að það gæti orðið að veruleika. Fræðslumyndin er nú tilbúin en markmið hennar er að fræða aðra vegfarendur um eðli og viðbragð hestsins og hvernig best sé að bergðast við hestaumferð til þess að minnka áhættu á slysum. Þar er einnig lögð áhersla á að ólíkir útivistahópar geti notið útivistar saman, setji sig í spor hvers annars og kunni að bregðast rétt við.

Í kjölfarið var farið í það að vinna sáttmála milli hestafólks og annara vegfarenda sem verður undirritaður á blaðamannafundi næsta laugardag. Auk þess sem fræðslumyndin sem unnin var í samvinnu við Samgöngustofu verður frumsýnd.

Eftirfarandi hópar hafa komið sér saman um „Sáttmála hestafólks og annarra vegfarenda

  • Landssamband hestamannafélaga 
  • Hjólreiðasamband Íslands 
  • Landssamtök hjólreiðamanna 
  • FÍB – Félag íslenskra bifreiðaeigenda 
  • Ökukennarafélag Íslands  
  • Sniglarnir  
  • Slóðavinir  
  • Félag ábyrgra hundaeigenda   
  • Skíðasamband Íslands  
  • Skíðagöngufélagið Ullur  
  • Frjálsíþróttasamband Íslands
  • Vegagerðin   
  • Samgöngustofa

Fulltrúar þessara hópa upplýsa svo sína félagsmenn um ólíkar þarfir þessara hópa og nauðsyn þess að við sýnum hvort öðru virðingu og að við notum aðeins þá stíga og svæði sem hverri íþrótt er ætlað.

Það er von stjórnar LH að með víðtæku samtali, fræðslu og gagnkvæmri virðingu takist okkur að njóta útiveru í sátt og samlyndi hvort við annað.

Blaðamannafundinum verður streymt á facebooksíðu LH kl. 10:00, laugardaginn 8.maí.