Sex knapar komnir inn í landsliðið

15.06.2015
Guðmundur og Hrímnir, mynd: Jón Björnsson

Landslið Íslands í hestaíþróttum er að taka á sig mynd fyrir heimsmeistaramótið sem haldið verður í Herning í Danmörku dagana 3.-9. ágúst nk.

Um helgina komust sex knapar inn í liðið, fimm í gegnum úrtöku og einn valinn af Páli Braga liðsstjóra. Ríkjandi heimsmeistarar, þeir Jóhann R. Skúlason, Bergþór Eggertsson og Konráð Valur Sveinsson, eru einnig með keppnisrétt á mótinu til að verja sína titla.

Knaparnir sem komust inn í liðið gegnum úrtökuna um helgina eru:

  • Reynir Örn Pálmason á Greifa frá Holtsmúla, urðu efstir í fimmgangi (F1)
  • Guðmundur Björgvinsson á Hrímni frá Ósi, sigraði fjórganginn (V1)
  • Sigurður Sigurðarson og Arna frá Skipaskaga, urðu efst í tölti (T1)
  • Gústaf Ásgeir Hinriksson og Geisli frá Svanavatni, unnu fimmgang (F1) ungmenna
  • Guðmunda Ellen Sigurðardóttir og Týr frá Skálatjörn, urðu efst í fjórgangi (V1) ungmenna

Einnig var Eyjólfur Þorsteinsson á Oliver frá Kvistum valinn inn í hópinn, en þeir félagar hafa verið að gera það gott á mótum í Svíþjóð núna í vor. Eyjólfur kemur því inn sem knapi númer sex samkvæmt Lyklinum að vali á landsliðinu.

Landssamband hestamannafélaga og landsliðsnefnd LH óskar þeim öllum til hamingju með að vera komin í landsliðið og velfarnaðar í þeim mikla undirbúningi sem nú fer í hönd.

Enn eiga eftir að veljast sex íþróttaknapar í liðið, þrír fullorðnir og þrjú ungmenni, ásamt sex kynbótahestum sem munu keppa fyrir Íslands hönd.