Sigurbjörn Bárðarson tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ

04.01.2025

Í kvöld fór fram hátíðin íþróttamaður ársins og var við það tilefni tilkynnt að Sigurbjörn Bárðarson hefur verið tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ. Hann er fyrsti hestamaðurinn sem hlýtur þessa miklu viðurkenningu.

Sigurbjörn þarf vart að kynna fyrir nokkrum hestamanni en keppnisferill hans er einstakur og er auðvelt að fullyrða að enginn íþróttamaður á Íslandi standist honum samanburð í þeim efnum. Sigurbjörn hlaut titilinn íþróttamaður ársins árið 1993 og hefur fimm sinnum verið tilnefndur í hóp 10 efstu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna, er það einn mesti heiður sem íslenskum hestaíþróttamanni hefur hlotnast. Hann var sæmdur heiðursverðlaunum LH 2022.

Keppnisferillinn spannar hátt í 60 ár þar sem Sigurbjörn hefur unnið til 13 heimsmeistaratitla, sett fjölmörg heimsmet, ótal Íslandsmet, unnið yfir 120 Íslandsmeistaratitla og sigrað flestar greinar Landsmóta, nú síðast árið 2022 þá 70 ára gamall.

Sigurbjörn hefur í gegnum tíðina einnig gengt stóru hlutverki í menntamálum hestamanna á Íslandi, gefið út kennslubók, kennsluefni og myndbönd, setið í fræðslu- og menntanefndum FT og GDLH og háskólaráði Háskólans á Hólum, ásamt því að hafa virka aðkomu að framkvæmd og dæmingu prófa á Háskólanum á Hólum. Þar að auki skipta nemendur hans í reiðkennslu þúsundum um heim allan gegnum tíðina.

Sigurbjörn hefur unnið ötullega að félagsstörfum alla tíð og var til að mynda formaður Félags tamningamanna um árabil, varaformaður Hestamannafélagsins Fáks, sat í stjórn og byggingarnefnd fyrstu alvöru reiðhallarinnar á Íslandi, auk þess að sitja í nefndum FEIF og fleiri samtaka.

Þegar kemur að kynningarmálum hefur Sigurbjörn ekki látið sitt eftir liggja og sem dæmi má nefna aðkomu að stórsýningum um heim allan, eins og í Madison Square Garden, Equitana og fleiri stórviðburðum auk þess að setja á fót ýmsar sýningar hér á landi, sumar ansi frumlegar og sérstakar eins og Hestagaldur í Skautahöllinni í Laugardal, sýning í Ásbyrgi, riðið niður Almannagjá, Miðbæjarreið og margt fleira. Þegar kemur að því að kynna íslenska hestinn er Sigurbjörn sannarlega ötull sendiherra.

Þáttur Sigurbjörns í ímyndarvinnu hestamennskunnar verður seint að fullu metinn. Sigurbjörn hefur verið í fararbroddi þegar kemur að ímynd sinnar íþróttagreinar, þróun reiðmennsku og kynningarstarfs Íslandshestamennskunnar um allan heim. Hann hefur lyft íþróttinni upp á annað plan hvað varðar ásýnd og fagmennsku. Vandvirkni hans og virðing fyrir viðfangsefninu hefur smitast til allra sem að hestamennsku koma enda hefur hann verið fyrirmynd nýrra kynslóða í áratugi.

Sigurbjörn hefur frá upphafi ferils sýns verið fyrirmynd annars hestafólks þegar kemur að reglusemi, ástundun, elju og snyrtimennsku og átt þannig stóran þátt í bættri ásýnd og fagmennsku innan íþróttarinnar.

Inntaka Sigurbjörns í Heiðurshöll ÍSÍ bætist nú við ótrúlegt safn verðlauna og viðurkenninga sem honum hefur hlotnast í gegnum tíðina en auk þess að eiga langstærsta verðlaunasafn landsins þá hefur hann eins og áður segir hlotið fjölda annarra viðurkenninga en þar má til dæmis nefna Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu, Heiðursverðlaun LH, Gullmerki LH, Gullmerki og Heiðursmerki Félags tamningamanna, Gullmerki og Heiðursverðlaun Fáks, auk titilsins íþróttamaður ársins.

Við óskum Sigurbirni Bárðarsyni innilega til hamingju!

Nánar má lesa um Heiðurshöll ÍSÍ hér: Reglugerð um Heiðurshöll ÍSÍ 10102024.pdf og yfirlit yfir aðra íþróttamenn sem einnig hafa hlotið þessa viðurkenningu má finna hér: Heiðurshöll ÍSÍ