Sigvaldi Lárus er reiðkennari ársins 2022

07.12.2022
Mynd: Marta Gunnarsdóttir

Sigvaldi Lárus Guðmundsson er reiðkennari ársins 2022 á Íslandi.

Sigvaldi er uppalinn í hestamennsku í Dalabyggð og flutti svo á unglingsárum í Kópavoginn. Árin 2012-2014 starfaði hann sem reiðkennari á Hólum og hefur hann einnig kennt á Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Hann starfar nú á Litlalandi í Ásahreppi.

Í umsögn um Sigvalda stendur: Sigvaldi er yfirkennari hæfileikamótunar LH og hefur hann náð góðum árangri með krökkunum í því verkefni. Hann hefur mikinn metnað og er þekktur sem mjög vandvirkur reiðkennari, hann er jákvæður og mildur en samt staðfastur og hreinskilinn. Hann er með mikla reynslu af frumtamningum og keppni og hefur m.a kennt á Hólum. Sigvaldi kennir á öllum stigum reiðmennskunnar allt frá börnum upp í atvinnumenn. 

Sigvaldi fær afhent verðlaun á Menntadegi A - landsliðsins á laugardaginn næstkomandi. 

Val á Sigvalda sem reiðkennara ársins fyrir Íslands hönd verður sent til Feif sem reiðkennari ársins (Feif trainer of the year) og verður kosning á vefsíðu Feif  þann 9 -16. janúar 2023 þar sem kosið verður um 1 reiðkennara frá hverju landi. Sigurvegari í Feif kosningunni verður síðan tilkynntur 3-4.febrúar 2023.

LH óskar Sigvalda til hamingju!