Silfurhafar keppast um gullið

04.05.2023

Slaktaumatöltið verður áhugavert á Allra sterkustu en þar munu mætast Teitur Árnason á Nirði frá Feti,  Viðar Ingólfsson á Eldi frá Mið-Fossum, Sigurður Vignir Matthíasson á Dýra frá Hrafnkelsstöðum 1, Arnar Bjarki Sigurðsson á Magna frá Ríp og síðast en ekki síst Ragnhildur Haraldsdóttir á Kötlu frá Mörk.

Þrír hestanna eiga það sameiginlegt að hafa unnið til silfurverðlauna í T2 með knöpum sínum í fyrra. Njörður frá Feti var silfurhafi á Landsmóti, Eldur frá Mið-Fossum var silfurhafi á Íslandsmótinu og Magni frá Ríp var silfurhafi á Suðurlandsmótinu.

Dýri frá Hrafnkelsstöðum 1 varð sigurvegari í T2 í Meistaradeild æskunnar í vetur hjá Matthíasi Sigurðssyni og er ríkjandi Íslandsmeistari í unglingaflokk. Það verður spennandi að sjá hvort Sigurður Vignir nái gulli líkt og sonur hans á Dýra. Þá hefur Katla frá Mörk náð góðum árangri í T2 og varð í 2-3 sæti á íþróttamóti Sleipnis 2022 og Reykjarvíkurmeistari í fjórgang 2021 með Ólöfu Helgu Hilmarsdóttur. Það verður spennandi að sjá hvernig Ragnhildur og Katla ná saman í brautinni á laugardaginn.