Skráning á Svellkaldar konur í kvöld

05.03.2013
Undirbúningur er í fullum gangi fyrir hið vinsæla ístöltmót „Svellkaldar konur“ sem haldið er til styrktar íslenska landsliðinu í hestaíþróttum.

Undirbúningur er í fullum gangi fyrir hið vinsæla ístöltmót „Svellkaldar konur“ sem haldið er til styrktar íslenska landsliðinu í hestaíþróttum. Mótið fer fram laugardaginn 16. mars nk kl 17:00 í Skautahöllinni í Laugardal og hefst skráning þriðjudaginn 6. mars.

 
Keppnin verður með sama sniði og áður, þ.e. þrír styrkleikaflokkar: Minna vanar, Meira vanar og Opinn flokkur. Aðeins 100 pláss eru í boði og getur hver keppandi einungis skráð einn hest til leiks og hafa seinustu ár komist færri að en vilja.
 
Að venju verður mótið hið veglegasta hvað umgjörð og verðlaun varðar. Boðið verður upp á A og B úrslit í öllum flokkum auk þess sem glæsilegasta par mótsins er valið af dómurum og fær sú hin heppna 50.000 kr gjafabréf í tískuvöruversluninni Tuzzi í Kringlunni. Meðal annarra verðlauna eru Cintamani flíspeysur, gjafapakkar frá Líflandi, gjafapakkar frá Bláa Lóninu, snyrtivörur frá Óm snyrtivörum, einkatímum frá fremstu kvennreiðkennurum landsins, folatollar undir Herkúles, Hrafnar og Þrym frá Ragnheiðarstöðum og frí hestamyndataka.
 
Hestamenn eru hvattir til að mæta á geysiskemmtilegt mót og styrkja í leiðinni landsliðið okkar, en aðgöngumiðinn gildir einnig sem happadrættismiði þar sem dregnir verða út folatollar undir stóðhestana Andra frá Vatnsleysu, Brjáni frá Blesastöðum, Krók frá Ytra-Dalsgerði og heimsmethafann Spuna frá Vesturkoti.
Konur eru hvattar til að taka laugardaginn 16. mars strax frá og fylgjast með fréttum á vefmiðlum hestamanna og áFacebook Svellkaldra kvenna.