Smitandi hósti í hrossum – stöðumat 20. maí

22.05.2010
Dýralækni hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun var tilkynnt um smitandi hósta í hrossum á Hólum í Hjaltadal og tveimur nágrannabæjum hinn 7. apríl sl. Þeirri tilkynningu fylgdu upplýsingar um að veikin hefði sennilega verið í gangi í tvær til þrjár vikur og hugsanlega lengur. Öruggustu tilfellin voru hestar sem komu til Hóla nokkru fyrir páska (um miðjan mars) og var veikin mjög greinilega að breiðast út frá þeim. Við athugun kom í ljós að veikin var á sama tíma komin á margar stórar tamningastöðvar á Suðurlandi, í  a.m.k. eitt hesthús í Reykjavík (smitið barst með hesti sem kom í húsið 7. mars) og annað í Keflavík. Allar þessar tamningastöðvar, þ.m.t.  Hólar, höfðu tengsl við tiltekna þjálfunarmiðstöð og höfðu tekið við hestum þaðan fyrir eða um páska. Á þeirri þjálfunarmiðstöð var ekki að hafa nákvæmar upplýsingar um hvenær fyrst hafði orðið vart við hesta með einkenni veikinnar né hvernig hún hefði hugsanlega borist þangað. Dýralækni hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun var tilkynnt um smitandi hósta í hrossum á Hólum í Hjaltadal og tveimur nágrannabæjum hinn 7. apríl sl. Þeirri tilkynningu fylgdu upplýsingar um að veikin hefði sennilega verið í gangi í tvær til þrjár vikur og hugsanlega lengur. Öruggustu tilfellin voru hestar sem komu til Hóla nokkru fyrir páska (um miðjan mars) og var veikin mjög greinilega að breiðast út frá þeim. Við athugun kom í ljós að veikin var á sama tíma komin á margar stórar tamningastöðvar á Suðurlandi, í  a.m.k. eitt hesthús í Reykjavík (smitið barst með hesti sem kom í húsið 7. mars) og annað í Keflavík. Allar þessar tamningastöðvar, þ.m.t.  Hólar, höfðu tengsl við tiltekna þjálfunarmiðstöð og höfðu tekið við hestum þaðan fyrir eða um páska. Á þeirri þjálfunarmiðstöð var ekki að hafa nákvæmar upplýsingar um hvenær fyrst hafði orðið vart við hesta með einkenni veikinnar né hvernig hún hefði hugsanlega borist þangað.

Í því ljósi  var ákveðið  að virkja ekki þá viðbragðsáætlun sem til er fyrir alvarlega smitsjúkdóma í hrossum. Ljóst var að  hún myndi skila takmörkuðum árangri þar sem smitdreifingin var þegar orðin mjög mikil og einnig var ekki talið að um alvarlegan sjúkdóm væri að ræða. Þó komið hafi í ljós að hrossin eru lengur veik en ætlað var í byrjun, hefur það mat ekki breyst.

Sjúkmdómseinkenni:
Greinilegasta einkennið er þurr hósti sem menn verða oft fyrst varir við í reið. Samtímis eða nokkru fyrr má í sumum tilfellum greina slappleika og nefrennsli  Þegar frá líður fá mörg hrossanna mikinn, graftarkenndan hor og hósta þá gjarnan mikið og frísa. Þau sem fara verst út úr sýkingunni fá hita. Einkennin vara alla jafna í 2 – 5 vikur og lengur í einhverjum tilfellum. Við nánari skoðun með speglun komu í ljós vægar slímhúðarbreitingar í efri hluta öndunarvegar þ.e. nefholi, koki, og barka (Helgi Sigurðsson og Vilhjálmur Svansson 6. maí 2010). 

Faraldsfræði:
Misjafnt er hversu langur  tími líður frá því smit berst í hesthús þar til hestarnir fara að hósta, oftast þó um 2 – 4 vikur. Hross sem koma inn í mikið sýkt umhverfi fá einkenni eftir 1-2 vikur. Sjúkdómsferillinn virðist  býsna líkur milli hesthúsa og er einkennandi að aðeins fáir hestar veikjast í byrjun og yfirleitt vægilega. Þá er eins og smitið magnist upp og um tveimur til þremur vikum síðar eru margir hestarnir í húsinu farnir að hósta og jafnvel komnir með graftarkennt nefrennsli. Má ganga að því vísu að allir hestar sem á annað borð eru í smituðu umhverfi veikist þó einkennin geti verið mis mikil. Bendir það til að allur hrossastofninn sé næmur fyrir sýkingunni og því er líklega um nýtt smitefni að ræða hér á landi. Ekki liggur fyrir hversu lengi hross smita út frá sér eða hversu langur tími líður frá því veikin gengur yfir í hesthúsi þar til það verður smitfrítt.
Algengasta og greinilegasta smitleiðin er með smituðum eða veikum hrossum sem flutt eru milli húsa. Einnig berst hún með reiðverum og líklega geta menn borið hana á milli hesta ef  smitvarna er ekki gætt. Veikin berst einnig í útigangshross en alla jafna sýna þau aðeins væg sjúkdómseinkenni.
Sem fyrr segir breiddst veikin fyrst út um Skagafjörð og Suðurland en er nú komin um allt land. Út frá tilkynningum og almennum fréttum um útbreiðslu veikinnar má ætla að meirihluti reiðhesta á þéttbýlli stöðum landsins hafi verið búinn að taka smitið um mánaðarmótin apríl – maí og þá hafi faraldurinn sem slíkur náð hámarki. Eftirköst þess eru enn að koma í ljós og má reikna með að mikið beri á einkennum veikinnar allan maímánuð.  Á flestum þeim tamningastöðvum og bæjum sem fengu veikina um eða uppúr páskum eru mörg hrossanna nú komin í þjálfun aftur og hafa náð fyrra formi. Það bendir eindregið til þess að þau nái fullum bata þó það taki mislangan tíma.
Þó ekki sé um mjög alvarlega veiki að ræða kemur hún á afar vondum tíma og veldur miklu tjóni á allri hestatengdri starfsemi. Það er ekki nema eðlilegt að menn spyrji hvort hægt hefði verið að draga úr því tjóni með einhverjum aðgerðum. En þegar við stöndum frammi fyrir svo mikilli smitdreifingu áður en sjúkdómurinn uppgötvast og svo löngum og lúmskum meðgöngutíma að enginn veit hvaða hross eru í raun smituð, er fátt til ráða annað en að hugsa vel um hrossin og bíða eftir að veikin gangi yfir.

Greiningar:
Sýni voru tekin strax og tilkynningin barst, bæði blóðsýni (parað sermi, tvö sýni með 10 daga millibili) og stroksýni úr nefi og þau send til greiningar á Keldum og Dýralækningastofnun Svíþjóðar. Auk þess hafa sýni verið send veirudeildar Justus-Liebig-háskólans í Giessen Þýskalandi.  Veirurannsóknir hafa hingað til ekki skilað árangri. Alvarlegar öndunarfærasýkingar sem þekktar eru í hrossum, þ.e. hestainflúensa (og raunar allar þekktar gerðir inflúensu), smitandi háls og lungnakvef/fósturlát/heilabólga (hesta herpes týpa 1,EHV-1) og smitandi æðabólga (EAV) hafa ekki greinst. Rannsóknir hafa einnig sýnt að orsökin er ekki rhinoveirur 1, 2 og  3, hesta herpes týpurnar 4, 2 eða 5 né adenovirus typa 1. Þó enn sé unnið að greiningu sjúkdómsins er sá möguleiki fyrir hendi að  um sé að ræða óþekkta veiru í hrossum sem engin próf eru til fyrir og þar með finnist orsökin ekki. Út frá faraldsfræðinni og klínískum einkennum sem að framan eru rakin má þó telja næsta víst að veirusýking sé frumorsökin og að hún veiki slímhúðina og opni fyrir öðrum sýkingum. 
Bakteríuræktun hefur leitt í ljós að mikið er um sýkingar með Streptococcus zooepidemicus sem reyndar er algeng baktería í nefholi hesta. Bakterían er þekkt kjölfarssýking eftir veirusýkingar og má telja líklegt að hún sé að valda bæði alvarlegri hósta og hinum mikla graftarkennda hor. Bakterían Streptococcus equi sem veldur hinni illvígu kverkeitlabólgu hefur hins vegar ekki greinst enda benda einkennin ekki til að um svo alvarlegan sjúkdóm sé að ræða.

Meðferð veikra hrossa:
Algjör hvíld er lykilatriði allt frá því fyrst verður vart við einkenni sjúkdómsins. Búa verður hrossunum eins loftgott umhverfi og frekast er unnt án þess þó að það slái að þeim eða þeim verði kalt. Með hlýnandi veðri er æskilegt að hafa hrossin mikið úti við. Lyfjameðhöndlun kemur til greina hjá þeim hrossum sem harðast verða úti, einkum þeim sem fá hita og/eða mikinn hor.
Varast ber að byrja brúkun fyrr en hrossin eru hætt að hósta og ekki ber lengur á graftarkenndum hor. Byrja skal þjálfun á ný afar rólega en knapinn finnur það fljótlega hvort hrossið hefur náð bata. Ráðlegt er að hreinsa vel hesthús sem hýst haf veik hross og jafnvel sótthreinsa.

Spurningar frá Landbúnaðarráðuneyti

1. Uppruni sjúkdómsins
Ekki verður fullyrt á þessari stundu hvaðan veikin er upprunnin enda hefur ekki tekist að greina hana. Líklegast er um væga veikusýkingu að ræða í byrjun en algengt er að bakteríusýkingar fylgi í kjölfarið og eiga þær drjúgan þátt í sjúkdómsmyndinni. Hrossastofninn virðist allur meira og minna móttækilegur fyrir veikinni og bendir það til að um nýtt smitefni sé að ræða sem hafi komið erlendis frá.
Við athugun á uppruna veikinnar hefur komið í ljós að mánuðina áður en faraldurinn fór af stað bar á svipuðum veikindum í stöku hesthúsum. Dæmi voru um að meirihluti hrossa í tilteknum húsum sýndi einkenni án þess að séð væri að veikin breiddist milli húsa eða staða. Þessi tilfelli voru ekki tilkynnt sem grunur um smitsjúkdóm. Í flestum þessum húsum hafa hrossin nú veikst aftur. 
Tímasetningin á faraldrinum beinir kastljósinu að íslenskum reiðkennurum og tamninga/sýningamönnum sem vinna mikið erlendis. Komið hefur í ljós að ekki er óalgengt að menn taki beisli og þá reyndar helst mél með sér í þessa vinnu og svo aftur heim. Eftir því sem svona vinnuferðir verða hversdagslegri er hætt við að slakni á smitvörnum auk þess sem mikil tímapressa á þessum ferðalögum gefur lítið svigrúm til smitvarna.
Sömuleiðis þarf að huga að erlendum hestkaupmönnum og „sérfræðingum“ ýmiskonar sem leggja leið sína hingað til lands og eru í sumum tilfellum með búnað með sér.
Sjúkdómurinn er í eðli sínu vægur og einkennist af sýkingu í efri hluta öndunarvegar (nefholi,koki, barkakýli og barka) en lítil hætta virðist á að hann berist í lungun. Hósti og nefrennsli sem getur orðið graftarkennt einkenna sjúkdóminn. Hrossin fá alla jafna ekki hita en geta orðið slöpp og lin tímabundið. Nokkuð er þó um að hross fái alvarlegri einkenni s.s. hita og mikinn graftarkenndan hor. Þau hafa svarað meðhöndlun með fúkkalyfjum þokkalega og ekkert bendir til annars en að þau nái sér að fullu. Ekki hafa borist tilkynningar um alvarlegri eftirköst sjúkdómsins og hann virðist ekki fara illa í útigangshross. Eigendur er þó hvattir til að fylgjast vel með útigangshrossum, einkum fylfullum, nýköstuðum hryssum og folöldum.
Búið er að útiloka alvarlegar veirusýkingar sem þekkt er að leggist á öndunarfæri hrossa sem og hina illvígu bakteríusýkingu sem veldur kverkeitlabólgu.

2.Efling sjúkdómsins
Orsök faraldursins liggur að verulegu leyti í því að hrossastofninn er allur móttækilegur auk þess sem hross eru haldin mjög þétt hér á landi og reiðhestum haldið mikið inni. Ákvæðum aðbúnaðarreglugerðar um útiveru og annan aðbúnað hrossa er víða ekki fylgt og á það m.a. við um loftskipti í hesthúsum. Margir hestar eru undir miklu álagi í þjálfun og keppni auk álags vegna flutninga. Flutningar á hrossum eru almennt mjög miklir. Síðast en ekki síst eru allir, hestamenn og dýralæknar, óvanir smitsjúkdómum í hrossum og illa undir það búnir að takast á við þá. Smitvarnir eru hvergi viðhafðar.
Í „nútíma“ hestahaldi hafa bæst við þættir sem auka áhættuna. Má þar nefna að samhliða mikilli inniveru er mikið um að hestar séu rakaðir um miðjan vetur til að flýta fyrir að þeir gangi úr hárum. Keppnis- og sýningarhestar eru í einhverjum tilfellum svo grannir og gengnir úr hárum að þeir geta í raun ekkert verið úti yfir veturinn. Samt eru þeir hiklaust fluttir á kerrum langar leiðir (oft þó með ábreiðum). Sífellt lengra keppnistímabil eykur álag og getur valdið langvarandi stressi. Ryk í reiðhöllum og frá undirburði ertir slímhúð öndunarfæranna og verða þau einkenni ekki skilin frá vægum sýkingum í byrjun. Þá geta safnstíur  hugsanlega átt þátt í að viðhalda smiti. Að lokum má nefna að þjálfun sem ekki gefur hestum  möguleika á að hægja á sér ef þeir eru slappir eða bera önnur einkenni veikinda (t.d. með vélbúnaði og í sundlaugum /vatnsbrettum) kemur sér illa ef hestar eru að veikjast.
Tikynningaskylda. Eigendum ber að tilkynna starfandi dýralækni eða Matvælastofnun (héraðsdýralækni, sérgreinadýralækni, yfirdýralækni) um grun um smitsjúkdóm. Starfandi dýralæknum ber að tilkynna slíkan grun áfram til Matvæalstofnunar hvort sem hann er kominn frá eigendum eða þeim sjálfum. Öllum dýralæknum er kunnugt um þessar skyldur sínar. Þegar slíkar tilkynningar berast Mast meta yfirdýralæknir og sérgreinadýralæknir, í samráði við aðra sérfræðinga, hvort ástæða sé til að virkja viðbragðsáætlun eða setja í gang aðrar aðgerðir.
Í þessu tilfelli villti hinn langi meðgöngutími sjúkdómsins og væg byrjunareinkenni um fyrir dýralæknum og eigendum. Grunur um smitsjúkdóm var ekki tilkynntur fyrr en hann hafði mallað svo lengi að útilokað var að stöðva útbreiðslu hans. Það er raunar ekki líklegt að það hefði verið hægt hvort sem er, svo lúmskur er sjúkdómurinn og smitandi.
Strax var farið í sýnatöku en hafa verður í huga að mikilvægustu sýnin eru pöruð blóðsýni með 10 daga millibili. Sýnatakan og úrvinnsla úr þeim er því alla jafna nokkuð langur ferill.
Stroksýni úr nefi hesta með byrjunareinkenni sjúkdómsins fóru í PCR rannsókn og veiruræktun í frumum. PCR er erfðatæknileg aðferð sem gefur niðurstöður hratt fyrir tilteknar veirur ef þær á annað borð eru í sýninu.
Blóðsýni (sermi) þarf að taka tvisvar með 10 – 14 daga millibili til að mæla hugsanlega hækkun á mótefnum. Ef mótefni finnst fyrir veiru sem ekki hefur greinst hér áður er hægt að nota lífsýnabanka íslenska hestsins á Keldum til að meta hvenær hún barst til landsins.

3.Mótahald og markaðsstarfsemi
Matvælastofnun hefur ekki bannað mótahald né flutninga á hestum og hefur engin áform um slíkt. Þeir sem enn eiga ósmitaða hesta og stefna á Landsmót hafa verið hvattir til að verjast smiti og það gera þeir fyrst og fremst með því að taka ekki á móti nýjum hestum í hús sín eða nánasta umhverfi og varast náinn samgang við önnur hross auk almennra smitvarna (hreinlætis). Þeir geta tekið þátt í kynbótasýningum eða úrtökumótum með því að halda sig eftir megni frá öðrum hrossum á mótssvæðum, í kerrum eða með því að koma upp gerðum í útjaðri mótssvæða. Ekki ætti að vera mikil smithætta á keppnisvellinum. Þeir sem enn eru lausir við sjúkdóminn í hestum sínum ættu þannig að geta haldið þeim frískum fram yfir Landsmót. Eftir því sem hrossin eru meira úti minnkar og smitálagið. Þar sem meirihluti reiðhestastofnsins er nú þegar smitaður hafa aðrar smitvarnir engan sérstakan tilgang.
Faraldurinn náði hámarki um mánaðarmótin apríl/maí og því má reikna með að mikið verði um hross með einkenni veikinnar allan maímánuð. Ætla má að mikið dragi úr veikindunum í júní. Veikin mun engu að síður hafa mikil áhrif á Landsmótið, sérstaklega allar forkeppnir og kynbótasýningar sem eru nauðsynlegar til að velja hross inn á mótið.
Knapar verða að vera á varðbergi gagnvart einkennum sjúkdómsins og draga hesta sína í hlé ef þeir eru ekki tilbúnir til keppni. Enginn finnur það betur en knapinn hvernig hestinum líður og það eru sameiginlegir hagsmunir hestsins og eigenda hans að þau mörk verði virt.  Mörg undanfarin Landsmót hafa öll keppnishross verið heilbrigðisskoðuð í byrjun móts til að tryggja að aðeins heilbrigð hross komi á keppnisvöllinn. Sú skoðun tekur til þessa sjúkdóms eins og annara og verður efld ef þurfa þykir. Velferð hrossanna verður því höfð í fyrirrúmi.
Útflutningur hefur ekki verið stöðvaður formlega. Hross sem sýna einkenni sjúkdómsins fá þó ekki faraleyfi. Hin mikla óvissa um hvaða hross eru í raun sýkt og hver eru búin að ganga í gegnum sýkinguna gerir þó útflutninginn mjög erfiðan í framkvæmd. Því hefur útflutningi verið frestað um óákveðinn tíma. Ekki hafa borist tilkynningar til Matvælastofnunar um  að hross hafi sýkst erlendis eftir samgang við nýlega útflutt hross. Fastlega er gert ráð fyrir að smitefnið sem um ræðir sé landlægt í viðskiptalöndum okkar og hættan á að útflutningur sýktra hrossa valdi faraldri erlendis er því talinn mjög lítill.

4.Annað
Smitsjúkdómur þessi líkist að mörgu leyti hitasóttinni sem barst til landsins 1998 nema nú er það efri hluti öndunarfæranna sem sýkist en þá voru það meltingarfærin. Í báðum tilfellum lítur út fyrir að um sé að ræða væga veirusýkingu sem er landlæg erlendis án þess að vera skilgreindur sjúkdómsvaldur. Aðstæður hér, einkum hversu móttækilegur hrossastofninn er og hversu þétt hross eru haldin, gefa smitefninu færi á að magnast upp og valda faraldri. Kjölfarssýkingar og aðrir fylgikvillar eru helstu ástæður þess hluti hrossanna veikist meira/lengur og þar skiptir aðbúnaður og meðferð hrossa miklu máli.  
Allt var reynt til að halda útbreiðslu hitasóttarinnar í skefjum en af ýmsum ástæðum reyndist það ekki mögulegt. Núna var það ekki reynt af þeim orsökum sem greint hefur verið frá að framan og auðvitað nýttum við þar reynsluna frá baráttunni við hitasóttina. Ekkert bendir til að varnaraðgerðir hefðu minnkað tjónið sem orðið hefur í allri hestatengdri starfsemi. Þegar ekki er um alvarlegri sjúkdóm að ræða, sem ekki ógnar heilsu hestanna varanlega eða tilvist hrossastofnsins, er að mörgu leyti best að hann gangi sem hraðast yfir.
Þetta er örugglega ekki síðasti veirusjúkdómurinn sem berst til landsins og ekki er víst að þeir verði allir eins vægir og þessi. Vðbragðsáætlun gegn alvarlegum sjúkdómum verður beitt ef þurfa þykir og þá mun reyna á samtakamáttinn og samvinnu allra hestamanna. En við verðum líka að búa okkur undir  að lifa með þeim pestum sem við getum ekki stoppað.
Aðgerðir.
Bæta sjúkdómaskráningar í hrossum og skerpa á viðbrögðum dýralækna.
Auka auglýsingar um smitvarnir og gera hestamenn, ekki sýst atvinnumennina, meðvitaðri um áhættuna og þá gífurlegu ábyrgð sem þeir bera.
Gefa áfram út bæklinga fyrir hestaleigur og aðra ferðaþjónustuaðila.
Bæta meðferð, aðbúnað og umhverfi hesta með tilliti til smitvarna og velferðar.
Leyfisskylda tamningastöðvar og hrossaræktarbú ?

Sigríður Björnsdóttir
Guðlaugur Antonsson
Sveinn Ólason