Sólin skín á fimmtadegi Landsmóts

05.07.2024

Dagurinn hófst á yfirlitssýningum kynbótahrossa. Eftir yfirlitið var komið að seinni sprettunum í150 og 250m skeiði. Efstur eftir fyrstu tvo sprettina var Gústaf Ásgeir Hinriksson á 22,01. Skeiðið byrjaði brösuglega og aðeins þrír sprettir heppnuðust af þrettán í þriðju umferð og svipað var upp á teningnum í fjórðu umferð þar sem fjórir náðu gildri ferð, en það þarf ekki meira og Konráð Valur og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk skutust fram úr Gústafi og Sjóð og sigruðu á tímanum 21,50sek.

Þá var komið að 150m þar sem Konráð Valur og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II áttu bestan tíma 13,88 eftir fyrstu tvo sprettina. Kjarkur lá ekki í þriðja sprett en það gerði hann í fjórða sprett og bætti tíman í 13,75 og var sigur þeirra aldrei í hættu og Konráð Valur því tvöfaldur landsmóts sigurvegari í skeiði. Glæsilegur árangur það.

Síðan var komið að B úrslitum í tölti. Þar var heldur betur boðið upp á veislu í glampandi sól og rífandi stemningu. Efst inn í B úrslitin voru Gústaf Ásgeir Hinriksson og Assa frá Miðhúsum með 8,27 og þau héldu forystu sinni og bættu um betur og hækkuðu sig í 8,61 og mun því mæta til A úrslita á sunnudaginn.

Deginum var svo lokað með einkar glæsilegum, fjörugum og skemmtilegum sýningum ræktunarbúana. Það segir sitthvað um hið einstaka geðslag íslenska hestsins að sjá fjölmörg unghross sýna sig fyrir fram stútfulla brekku áhorfenda með blússandi tónlist, klapp og köll allt um kring en haldast spennulaus og glöð.