Hestamannafélagið Sörli hlaut æskulýðsbikarinn 2022

09.11.2022
Á myndinni eru frá vinstri: Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Atli Már Ingólfsson formaður Sörla og Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir formaður æskulýðsnefndar LH.

Hestamannafélagið Sörli hlaut æskulýðsbikar LH 2022 á Landsþingi LH sem fram fór síðustu helgi. Þessi eftirsótti bikar er afhentur því félagi sem skara hefur þótt fram úr í æskulýðsstarfi á árinu. Bikarinn hefur verið afhentur frá því 1996 og velur æskulýðsnefnd LH handhafa bikarsins hverju sinni.

Sörli er fyrsta félagið til að hljóta Æskulýðsbikarinn þrisvar sinnum. Þetta er ein sú æðsta viðurkenning sem hægt er að hljóta fyrir æskulýðsstarf félaganna og metnaðarfullt æskulýðsstarf skiptir gríðarlegu máli fyrir framtíð félaganna, enda eitt það þýðingarmesta starf hvers félags.

Félagið hefur verið með mjög virkt starf og virðist sífellt vaxa og dafna. Á síðasta starfsári bauð Sörli upp á níu staka viðburði og tvær viðburðaraðir. Félagið stóð fyrir alls 25 fjölbreyttum viðburðum og viðburðarröðum fyrir alla aldurshópa ef með eru talin námskeið og æfingar. Félagið byrjaði starfið strax á haustmánuðum og er starfið þeirra orðið heilsvetrarstarf. Auk þess að starfrækja félagshesthús stendur Söli fyrir markvissum æfingum líkt og önnur íþróttafélög. Einnig er félagið duglegt bjóða upp á alls kyns nýjungar og hugsa út fyrir kassann. Meðal þess sem er athyglisvert er að þau virkja krakkana með sér og eru með sér ráð fyrir þau, settu upp TREC braut þar sem félagsmenn geta æft sig, buðu krökkunum í haustferð á hin ýmsu hrossaræktarbú og síðast en alls ekki síst nýttu þau aðstöðu LH á Skógarhólum og stóðu fyrir fjölskylduhestaferð á Skógarhóla.

Til hamingju Sörli!