Sörli og Léttir hafa keypt aðgang að myndefni á WorldFeng

23.03.2020

Nýlega bættust Hestamannafélögin Sörli og Léttir í hóp þeirra sem hafa keypt aðgang að myndefninu á WorldFeng. Fyrir eru með aðgang Sleipnir, Trausti, Kópur, Dreyri, Geysir og Snæfellingur ásamt Félagi hrossabænda og Íslandshestafélögunum í Svíþjóð, Noregi og Belgíu. Hestamannafélögum býðst að kaupa aðgang að myndböndunum fyrir sína félagsmenn fyrir 350 kr. á ári fyrir hvern félagsmann 18-69 ára, en almennur aðgangur kostar annars 4.990 á ári fyrir hvern notanda.

Nýjasta efnið sem komið er inn á WorldFeng eru hryssur frá LM 2002 og stóðhestarnir frá því móti væntanlegir á næstu dögum. Hryssur og stóðhestar frá LM 2000 komu inn nýlega ásamt stóðhestum, úrslitum í gæðingakeppninni og skeiði frá LM 2011.  Myndefni frá Landsmótunum 2002-2008 kemur svo jafn óðum inn í kjölfarið. 

Mikil söguleg verðmæti liggja í myndböndum frá landsmótum liðinna ára, þarna er skrásett saga landsmóta og kynbótasaga íslenska hestsins. Landsmót 1954-1986 eru í nokkrum stuttum þáttum. Landsmótin 2012, 2014, 2016 og 2018 eru klippt og tengd við hvern hest.

Þau félög sem hafa áhuga á að kaupa aðgang að myndefninu fyrir sína félagsmenn geta haft samband við skrifstofu LH á netfangið hjorny@lhhestar.is.